Flest þeirra fyrirtækja sem Sigmar Vilhjálmsson hefur komið að stofnun á hafa gengið vel, en það sem hefur ekki gengið jafnvel hefur hins vegar vakið mikla athygli. Margir tóku eftir því þegar sjónvarpsstöðvarnar Mikligarður og Bravó sem hann hóf rekstur á lentu fljótt í rekstrarerfiðleikum og stöðvaði hann rekstur þeirra stuttu eftir að útsendingar hófust.

„Það var mjög erfið ákvörðun og tók mjög á, sérstaklega því þetta var svo áberandi miðað við hve lítið verkefni þetta var í sjálfu sér, stórt minnkabú er stærra verkefni en þessir fjölmiðlar, enda eru fjölmiðlar þannig að þeir hafa einstaklega mikinn áhuga á öðrum fjölmiðlum, “ segir Sigmar sem segir lærdóminn vera að þó verkefni klikki þá sé það alls ekki endir alls ef svo fari.

„Ég set þó fyrirvara við að kalla verkefnið fjölmiðla, því hugmyndin byggði fyrst og fremst á að framleiða efni líkt og við sjáum með auknu vægi efnisveitna í dag, en ég ofmat þörfina á markaði á þessum tíma.  Það er þekkt hætta í frumkvöðlastarfsemi að verða of ástfanginn af hugmyndinni, en maður má ekki verða of blindaður og halda áfram út í óefni heldur er nauðsynlegt að vera meðvitaður um að það eru minni líkur en meiri á að allt virki eins og til er ætlast. Í raun er það þannig að ef þú ætlar að koma á fót nýju fyrirtæki á stórum markaði, er fyrsta spurningin sem kemur upp hversu oft þér hafi mistekist.

Að ætla að koma sigurreifur inn á fund fjárfesta og segja að þér hafi aldrei mistekist, þá segja þeir þér að koma og tala aftur við sig þegar þú ert búinn að floppa einu sinni eða tvisvar. Stórir fjárfestar setja ekki pening á eftir fólki sem ekki hafa klúðrað neinu verkefni, því þeir ætla sér ekki að verða fyrsta klúðrið. Og það er góð ástæða fyrir því, vegna þess að þeir sem hafa lent í erfiðleikum og horfst í augun á þeim þekkja viðvörunarmerkin í ferlinu, sem er mikil reynsla. Mesta reynslan fæst í erfiðleikunum og reynslunni af því að vinna sig út úr stöðunni.“

Mörg þeirra verkefna sem hafa hins vegar gengið vel hjá Sigmari eru vel þekkt, og má þar nefna Keiluhöllina í núverandi mynd, þar sem hann er framkvæmdarstjóri og Hamborgarafabrikkuna þar sem Jóhannes Ásbjörnsson félagi hans er sinnir markaðsmálum. Auk þess reka þeir félagar lúxushótel ásamt Jóhannesi Stefánssyni, oft kenndum við Múlakaffi, á efstu hæðum turnsins á Höfðatorgi fyrir ofan veitingastaðinn.

Allt viðtalið við Sigmar má lesa í tímaritinu Frumkvöðlum. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð .