Sumarið var óvenjuhlýtt, sérstaklega á landinu norðaustanverðu, þar sem það var sums staðar það hlýjasta frá upphafi mælinga. Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofunnar.

Í Reyjavík var sumarið það sjöunda hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga  árið 1871. Á Akureyri var sumarið það þriðja hlýjasta en í Grímsey var þetta langhlýjasta sumar frá upphafi mælinga þar árið 1874. Á Egilsstöðum og á Dalatanga var sumarið einnig það hlýjasta frá upphafi mælinga – en ekki hefur verið mælt jafnlengi á þeim stöðvum og þeim sem nefndar hafa verið.

Sumarið var mjög úrkomusamt og sem dæmir var úrkoman í Reykjavík 80 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Þetta er úrkomumesta sumar í Reykjavík síðan samfelldar úrkomumælingar hófust árið 1920. Úrkoma  10 prósent umfram meðallag á Akureyri og á Stórhöfða mældist úrkoman 63 prósent umfram meðallag.

Sólskinsstundir sumarsins mældust aðeins 501,7 í Reykjavík sem er 220 færri heldur en að meðaltali síðustu 10 árin. Svo fáar hafa sumarsólskinsstundir ekki mælst í Reykjavík síðan 1984. Á Akureyri mældust sólskinsstundir sumarsins 532,8 og er það 81,2 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Fara þarf aftur til sumarsins 2003 til að finna færri sumarsólskinsstundir á Akureyri heldur en nú.