Fimmtán milljarða króna tap FL Group [ FL ] af fjárfestingunni í bandaríska félaginu AMR er stærsta tap af einstakri fjárfestingu í sögu fjárfestinga Íslendinga erlendis, eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst. Fjárfestingar Íslendinga erlendis á síðustu árum og sókn þeirra á erlenda markaði, útrásin svokallaða, hófust fyrir alvöru seint á síðasta áratug og hafa vaxið mjög hratt. Almennt hafa þessar fjárfestingar og þau verkefni sem ráðist hefur verið í gengið afar vel og skilað miklum auði.

Dýr skóli í Bandaríkjunum

Þetta er þó ekki án undantekninga og meðal stærstu áfalla hingað til eru Bonus Dollar Stores í Bandaríkjunum, þar sem Baugur hugðist komast inn á lágvörumarkaðinn þar í landi. Eftir þriggja ára tilraun lauk verkefninu með um þriggja milljarða króna tapi og haft var eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni að þessi tilraun hefði verið dýr skóli. Segja má að námið hafi skilað sínu, því að eftir þetta hefur útrás Baugs í Bretlandi að mestu gengið afar vel og nú er til dæmis svo komið að verulegur hluti verslana við þekktustu verslanagötur Lundúnaborgar eru í eigu fyrirtækisins.

Tapið af Wyndeham

Þó að almennt hafi gengið vel í Bretlandi er eitt stærsta tap íslensku útrásarinnar hingað til að finna þar í landi. Þetta er prentsmiðjan Wyndeham sem Dagsbrún keypti á vormánuðum í fyrra fyrir 12,6 milljarða króna en setti í sölumeðferð fyrir lok sama árs. 365 [ 365 ], sem er eitt þeirra fyrirtækja sem varð til upp úr Dagsbrún, tapaði í fyrra 4 milljörðum króna á þessari fjárfestingu, samkvæmt reikningi síðasta árs. 365 á enn tæpan fimmtung í Wyndeham sem áformað er að selja fyrir árslok 2008.