Vikan sem var að renna sitt skeið er metvika á aðalmarkaði Kauphallarinnar en rúmlega 3.800 viðskipti áttu sér stað í vikunni, sem er það mesta frá haustinu 2008. Dagleg meðalvelta hefur verið ríflega 4,4 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tísti frá Nasdaq Iceland.

Í tístinu er þess einnig getið að 420 viðskipti hafi verið á dag að meðaltali en það er ríflega þrefalt fleiri viðskipti en á sama tíma í fyrra. Mikið var um viðskipti með bréf í Icelandair í tengslum við fregnir af bóluefnum. Að auki héldu erlendir sjóðir áfram að minnka við sig í Arion banka og hefur umtalsverð velta verið með bréf í honum.

Hlutabréfaverð í Icelandair hækkaði á ný í dag eða um 4,11%, mest allra félaga í Kauphöllinni í viðskiptum dagsins. Bréfin stóðu í 1,46 krónum á hlut við upphaf viðskipta í dag og fóru lægst í 1,38 krónur en hækkuðu í lok dags í 1,52 krónur á hlut. 332 milljóna velta var með bréf Icelandair í dag í 316 viðskiptum. Meðalstærð viðskipta með bréf Icelandair nam því ríflega milljón króna.

Gengi bréfa Icelandair tók dýfu á miðvikudagsmorgun úr 1,8 krónum á hlut niður í 1,55 krónur á hlut, en síðdegis á þriðjudag var greint frá því að ekki yrði af hjarðónæmistilraun Pfizer hér á landi við COVID-19.

Alls voru 633 viðskipti með hlutabréf í kauphöllinni í dag og 4,2 milljarða króna velta á nokkuð líflegum degi. 10 félög lækkuðu í viðskiptum dagsins en 9 hækkuðu.

Icelanda Seafood hækkaði um 1,9% og Arion banki um 1,33% í dag. Bréf Arion banka hafa hækkað um 18% frá áramótum.

Hlutabréfaverð Sjóvá, sem birti uppgjör í gær þar sem fram kom að félagið hagnaðist um 5,3 milljarða í fyrra, hækkaði um 0,93% en bréf Eikar, sem birti einnig uppgjör í gær lækkaði um 2,46%.

Mest lækkuðu bréf Sýnar eftir hækkunarhrinu síðustu daga, eða um 3,44% en bréfin hafa þó hækkað um 11,8% undanfarna viku. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær er félagið langt komið með að ljúka sölu á svokölluðum óvirkum fjarskiptainnviðum.