Gengi krónunnar haggaðist lítið í júlímánuði. Í lok mánaðar stóð hún í 154,2 á móti evru í samanburði við 154,5 í lok júní. Krónan hefur haldið sér í kringum 155 á móti evru í sex mánuði í röð, að því er fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans. Krónan veiktist hins vegar lítillega á móti Bandaríkjadal og stóð í 115,2 í lok júlí sem er um 2% veiking.

Í Hagsjánni kemur fram að alls hafi 182 milljón evra skipt um hendur í júlí. Það er mesta velta frá því í október 2008. Seðlabanki Íslands keypti þar af 83 milljónir evra.

Síðan um mitt ár 2013 hefur flöktið á íslensku  krónunni á móti evrunni farið lækkandi. Hefur það farið úr að vera um 10% á ársgrundvelli og niður fyrir 4%. Hvort sem aukinn stöðugleiki er bein afleiðing inngripa SÍ eða ekki, þá er ljóst að gengi krónunnar er mun stöðugra nú en um mitt ár 2013 þegar SÍ ákvað að bankinn yrði virkari á gjaldeyrismarkaði.