Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,84% í 2 milljarða veltu í kauphöllinni í dag en rauðar tölur voru um þrefalt fleiri en grænar við lokun markaða. Vís lækkaði mest allra í dag eða um 1,85% í 35 milljóna króna veltu. Þar á eftir kom Marel sem lækkaði um 1,25% í 326 milljóna krónu veltu.

Í hækkunum dagsins ber helst að nefna að hlutabréf Haga hækkuðu um 1% í dag í 421 milljón króna veltu. Búast má við ársuppgjöri Haga nú síðar í dag og verður því forvitnilegt að sjá hvernig þeim muni vegna á morgun. Þá hækkuðu hlutabréf í Reginn næst mest í dag eða um 0,78% í 25 milljóna krónu veltu.

Minna líf var á skuldabréfamarkaði en hefur verið undanfarna daga og nam veltan þar aðeins 1,4 milljörðum króna.