Heildarviðskipti með hlutabréf í aprílmánuði námu 3.675 milljónum eða sem nemur 216 milljónum á dag. Þessu til samanburðar nam veltan með hlutabréf í mars 16.862 milljónum eða sem nemur 766 milljónum á dag, samkvæmt upplýsingum úr Kauphöllinni.

Mest voru viðskipti með bréf Marel upp á 1.976 milljónir. Þar á eftir var næstmesta veltan með hlutabréf Icelandair Group upp á 800 milljónir króna. Þá var 538 milljóna króna velta með hlutabréf Haga.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 4,2% milli mánaða og stendur hún nú í 1084 stigum.

Þá átti Landsbankinn mestu hlutdeildina á Aðalmarkaði, 44,6% á móti 23,2% hjá MP banka. Hlutur Íslandsbanka nam svo 12,9%.