*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 11. september 2019 16:30

Mesta veltan með Símann og Festi

Rauður dagur var í kauphöllinni í dag, en fjórðungur viðskiptanna var með bréf Símans. Úrvalsvísitalan niður fyrir 2.000 stig.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi fór aftur undir 2.000 stig, með 0,56% lækkun á rauðum degi í kauphöllinni í dag, og endaði vísitalan í 1.992,83 stigum.

Heildarviðskiptin í dag námu 2,4 milljörðum króna, mest viðskipti voru með bréf Símans, eða fyrir 623,5 milljónir króna, en þau lækkuðu um 0,21%, niður í 4,65 krónur.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Festi eða fyrir 412,3 milljónir króna, en bréfin lækkuðu um 0,79% í 125,0 krónur. Þriðja mesta veltan var svo með bréf Marel, fyrir 230 milljónir en bréf félagsins lækkuðu um 0,35%, niður í 576,0 krónur.

Ekkert félag hækkaði í virði

Ekkert félag hækkaði í virði í kauphöllinni í dag, en fjögur félög stóðu í stað, Heimavellir, Brim, Sjóvá, TM og Origo. Þó má geta þess að gengi bréfa Össurar í dönsku kauphöllinni hækkaði um 1,58%, í 48,25 danskar krónur.

Mest lækkun var á gengi bréfa Sýnar, eða um 2,93% í 40 milljóna viðskiptum og enduðu bréfin í 26,50 krónum. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Kviku banka, eða um 2,36%, niður í 10,35 krónur, í 52 milljóna króna viðskiptum.

Þriðja mesta lækkunin var svo á gengi bréfa Eimskipafélagsins, eða um 1,69% í þó litlum viðskiptum eða fyrir 17 milljónir króna, en bréfin enduðu í 174,50 krónum.

Bandaríkjadalur á 125 krónur en pundið nærri 155 krónur

Evran, danska krónan, japanska jenið og norska krónan lækkuðu öll gagnvart íslensku krónunni í dag, fyrstu tvö um 0,14%, jenið um 0,03% og sú norska um 0,04%.

Bandaríkjadalur, breska sterlingspundið, svissneski frankinn og sænska krónan styrktust hins vegar gagnvart krónunni. Dalurinn um 0,25%, upp í 125,48 krónur, pundið um 0,10%, í 154,69 krónur, frankinn um 0,06% og sú sænska um 0,17%.