Velta innlendra greiðslukorta í síðasta mánuði jókst um 15 prósent samanborið við marsmánuð 2020. Að teknu tilliti til verðlags- og gengisbreytinga jókst veltan aftur á móti um rúmlega fimmtung. Slík aukning á veltu hefur ekki sést frá því fyrir efnahagshrun, nánar til tekið árið 2007. Þetta kemur fram í greiningu frá Íslandsbanka.

Samvkæmt tölunum nam veltan innan lands um 84.500 milljónum króna. Það liggur í augum uppi að ástæða veltuaukningarinnar er þrengingarnar sem leiddu af farsóttinni síðasta ár. Þær leiddu til þess að stórum hluta landsins var skellt í lás og því erfitt að verja fjármunum á meðan.

Eðli málsins samkvæmt dróst velta utan landssteinanna saman en samdrátturinn er minni en verið hefur. Samdrátturinn nú nam aðeins um fjórum prósentum en hefur undanfarna mánuði verið að meðaltali helmingur. Viðbúið er að velta erlendis muni taka kipp eftir því sem bólusetningar halda áfram og ferðavilji eykst.

Sé horft á ársfjórðunginn í heild þá jókst kortavelta heimilanna um ellefu prósent að raungildi en dróst saman um rúmlega þriðjung á erlendri grund. Samanlagt jókst veltan um 2,8% að raungildi á fyrstu þremur mánuðum ársins. Undanfarna mánuði hefur veltan haldist í hendur við framgang faraldursins, það er eftir því sem smitum fjölgar þá dregst veltan saman en tekur síðan við sér um leið og þeim fækkar.

Vaxandi kaupmáttur launa þeirra sem haldið hafa vinnu sinni í Kórónukreppunni styður við einkaneysluna um þessar mundir. Kórónukreppan hefur því ekki haft mikil áhrif á pyngju þeirra sem haldið hafa vinnunni. Atvinnuleysi hefur hins vegar aukist mikið og samkvæmt nýjust tölum Vinnumálastofnunar nemur atvinnuleysi nú um 11%. Samkvæmt síðustu þjóðhagsspá bankans, sem er frá í janúar, mun einkaneysla aukast um 2% árinu. Í fyrra dróst hún saman um rúm þrjú prósent og var það í fyrsta sinn í níu ár sem samdráttur mældist. Að mati bankans er ýmislegt sem bendir til þess að spá um 2% vöxt hafi verið of hófleg ef eitthvað er.