Verðbólga á evrusvæðinu mældist 3% í ágúst og hækkaði um 0,8 prósentustig frá fyrri mánuði. Hækkunin var yfir væntingum flestra hagfræðinga, að því er kemur fram í frétt Financial Times . Verðbólgan hefur ekki mælst hærri á evrusvæðinu síðan í nóvember 2011, um það leyti sem Seðlabanki Evrópu hækkaði síðast stýrivexti.

Verðlag í ágúst hækkaði eða hélst óbreytt í öllum nítján löndum á evrusvæðinu. Vísitala neysluverðs hækkaði mest í Eistlandi, Litháen og Belgíu eða á bilinu 4,5%-5,0%. Einungis fjórar þjóðir á svæðinu eru með verðbólgu undir efri mörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Evrópu sem er um 2%. Til samanburðar voru sextán þjóðir undir 2% markinu í mars síðastliðnum.

Ástæða aukinnar verðbólgu er sögð aukin umsvif í efnahagsmálum, hærri orkuverð, hækkun virðisaukaskatts í Þýskalandi og flöskuhálsar í virðiskeðjum. Einnig höfðu frestanir á útsölum á fatnaði áhrif á neyslu síðasta sumar.