*

miðvikudagur, 22. september 2021
Erlent 10. júní 2021 18:02

Mesta verðbólga frá fjármálakreppunni

Verðbólgan í Bandaríkjunum mældist 5% í maí en hún hefur ekki verið hærri síðan í september 2008.

Ritstjórn
Verð á bílaleigubílum í Bandaríkjunum hefur hækkað um 110% á einu ári.
epa

Vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum hækkaði um 5% á tólf mánaða tímabili í maí, samanborið við 4,2% í apríl. Verðbólgan hefur ekki mælst meiri í Bandaríkjunum í tæp þrettán ár eða síðan í september 2008. WSJ greinir frá.

Svokölluð kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, nam 3,8% í maí og hefur ekki mælst hærri frá því að skráning gagna í þeim flokki hófst árið 1992.

Verð á nýjum bílum hefur hækkað verulega að undanförnu vegna skorts á örgjörvum sem hefur sett strik í reikninginn hjá bílaframleiðendum. Margir hafa því leitað í notaða bíla en sá vöruflokkur hækkaði um 7,3% milli mánaða, sem nemur þriðjungi af hækkun vísitölu neysluverðs í maí.

Bílaleigufyrirtæki hafa einnig keyrt upp verðin sín í ár, m.a. vegna þess að þau höfðu selt hluta af flota sínum eftir að eftirspurnin dróst saman í faraldrinum. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar Bandaríkjanna hækkaði verð á bílaleigubílum um 110% á síðustu tólf mánuðum.

Sífellt fleiri fyrirtæki hafa fært hækkandi hrávöruverð og launakostnað út í verðlag. Matvælaframleiðendur segja að kostnaður þeirra sé að vaxa á ógnvekjandi hraða. „Verðbólguþrýstingurinn sem við horfum fram á er veigamikil,“ sagði Jeff Harmening, forstjóri General Mills, nýlega á fjárfestafundi. „Hann er örugglega meiri en við höfum upplifað á síðastliðnum áratugi.“

Stikkorð: Verðbólga