Sérfræðingar um breska fasteignamarkaðinn segja að húsnæðisverð í desember hafi ekki fallið meira á einum mánuði síðan í húsnæðiskreppunni þar í landi í byrjun tíunda áratugarins.

Samkvæmt upplýsingum frá fasteignasölum lækkaði húsnæðisverð í 49,1% fleiri tilfella heldur en í þeim tilfellum þar sem vart varð hækkana, að því er fram kemur í nýrri könnun hinnar Kongunglegu stofnunar löggiltra mælingamanna (e. Royal Institution of Chartered Surveyors). Í nóvembermánuði nam þetta hlutfall hins vegar 40,6%. Könnun RICS sýnir jafnframt að húsnæðisverð í London hefur ekki fallið meira í fimm ár.

Nýjar beiðnir um sölu á fasteignum hækkuðu í desember í fyrsta skipti í sex mánuði, samkvæmt könnun RICS, sem gefur til kynna að sumir húsnæðiseigendur séu ákafir í að selja eignir sínar áður en fasteignamarkaðurinn gæti versnað enn frekar.

Fram kemur í frétt Financial Times að kannanir RICS hafi reynst áreiðanlegur mælikvarði á þróun fasteignaverðs í Bretlandi á undanförnum árum. Hagfræðingar munu einnig veita því sérstaka athygli að velta á fasteignamarkaði hefur ekki verið minni síðan í ágústmánuði 2005, eftir að fjöldi óseldra fasteigna hækkaði þriðja mánuðinn í röð í desember. Hin Konunglega stofnun löggiltra mælingamanna spáir því að húsnæðisverð eigi eftir að lækka í öllum landshlutum Bretlands næstu þrjá mánuði.

Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir Ian Perry, talsmanni RICS, að niðurstöður könnunarinnar sýni að lausafjárþurrðin á fjármálamörkuðum, ásamt vaxtahækkunum Englandsbanka snemma á fyrra ári, hafi haft veruleg áhrif á húsnæðismarkaðinn. Hann telur að Englandsbanki muni þurfa að ráðast í frekari stýrivaxtalækkanir ef jafnvægi eigi að nást á markaðnum.

Reynist mat flestra sérfræðinga rétt um að komið sé að endalokum frekari hækkana á breskum fasteignamarkaði -- í bili að minnsta kosti -- gæti slíkt ógnað hagvexti þar í landi, vegna minnkandi einnkaneyslu almennings samfara lækkandi húsnæðisverði. Hagfræðingar spá því að Englandsbanki muni lækka vexti í næsta mánuði, í annað sinn eftir að bankinn lækkaði stýrivexti um 25 punkta í desember.