Kjartan Hallgeirsson, framkvæmdastjóri Eignamiðlunar og formaður Félags fasteignasala, telur árið hafa verið gott fyrir fasteignasala. Ánægjulegast þykir honum þó að sjá að yngri kaupendur virðast hafa tekið við sér á árinu. „Þetta eru fyrstu kaupendur, ætli það sé ekki aðallega fólk á aldrinum 25-30 ára“ segir Kjartan í samtali við Viðskiptablaðið.

Almennt séð segir hann hljóðið í fasteignasölum gott. „Flestir hafa nóg að gera“ tekur hann fram.

Tekur hann þó eftir því að eftirspurn á íbúðarhúsnæði sé að jafnast nokkuð út, „fasteignasalar eru ekki bara að selja íbúðir í 101, úthverfin eru að taka meira við sér. Þegar eftirspurnin er svona mikil og hægt er að fá ódýrari íbúðir í úthverfunum þá virðist eftirspurnin dreifast jafnar. Þetta verður því eðlilegri markaður“ segir hann.

Minna Airbnb

Kjartan vekur máls á því að ekki hafi borið eins mikið á því að fólk fjárfesti á íbúðum til að leigja út í gegnum vefinn Airbnb. „Það er náttúrulega búið að vera svo mikið að það gæti verið að markaðurinn sé bara búinn að mettast“ tekur hann fram. „Þá getur fólk kannski farið að flytja aftur niður í bæ, ef að eitthvað af þessum sölum tengdum Airbnb minnkar“ bætir hann svo við.

Fólk varkárara

„Afleiðingar af svona markaði er að það er mikil samkeppni og erfiðara að fá eignir á sölu. Það eru margir í faginu. Þetta hefur sem betur fer gerst svona jafnt og þétt en ekki í einhverri bólu sem kæmi til með að springa“ segir Kjartan.

Aðspurður um hvort að það sé skortur á íbúðarhúsnæði segir hann mesta vöntun á minnstu og ódýrustu einingunum. „Fólk er varkárara en það var hér á árum áður. Fyrir um 10 árum þá fannst fólki óþarfi að vera í litlum íbúðum og fór bara strax í stærri íbúðir“ segir hann.