Fjárfestingar í sjávarútvegi eru aftur að komast á skrið, að mati sérfræðinga hjá Íslandsbanka og landsbankanum. Undanfarin ár hafa fjárfestingar innan atvinnugreinarinnar verið í lágmarki þrátt fyrir góða afkomu. Segja þeir að nokkrar ástæður séu fyrir því að lítið hefur verið fjárfest, helst beri að nefna óvissu um fiskveiðistjórnunarkerfið auk þess sem fyrirtæki hafa lagt á það mikla áherslu eftir hrun að greiða niður skuldir.

Fjallað er um fjárfestingar í sjávarútvegi á vef LÍÚ. Þar er haft eftir Rúnari Jónssyni, forstöðumanni sjávarútvegs hjá Íslandsbanka, að svo virðist sem að nú hafi myndast geta og vilji hjá fyrirtækjum til endurnýjunar. Staða og fjárhagslegt bolmagn sjárvarútvegsfyrirtækja sé misjöfn. Þannig séu fjárfestingar í uppsjávarfyrirtækjum mestar. Uppsjávarfyrirtæki hafi byggt vinnslur til að auka gæði aflans og þar með verðmæti. Þannig hafi nýjar vinnslur til dæmis risið á Vopnafirði, , Akranesi, Þórshöfn og nýlega hafi verið gerður samingur um endurnýjun verksmiðju á Höfn.  Einnig hafi orðið mikil endurnýjun á tækjabúnaði í bolfiskvinnslu vegna aukinnar áherslu á landvinnslu.

„Með þessu myndast öflugri og betri sjávarútvegur, því þetta snýst ekki einungis um að viðhalda framleiðslutækjum heldur líka um að auka gæði og þar með tekjumöguleika útvegsins. Auk þess sem framleiðslan verður umhverfisvænni með nýrri tækni og aðferðum,“ segir Rúnar.

Undir þetta tekur Magnús H. Karlsson, viðskiptastjóri hjá Landsbankanum. „Með fjárfestingum eru gæði afurða aukin og hægt verður að vinna verðmætari vöru á hagkvæmari og umhverfisvænni hátt,“ segir hann.