Greiningardeild Glitnis telur mestar líkur á að Seðlabankinn haldi vöxtum sínum óbreyttum á fimmtudag. Þá segir hún það mögulegt að Seðlabankinn hækki stýrivexti um 0,25%. Hið fyrrnefnda er þó líklegra, að hennar mati.

?Vaxtahaukarnir í Seðlabankanum mæla ef til vill áfram með frekari vaxtahækkun en við teljum líklegast að bankastjórnin kjósi að halda vöxtum óbreyttum. Líklegt er að þeir vísi til þess að hagvöxtur dregst verulega saman um þessar mundir og verðbólgan hjaðnar.

Ekki er heldur hægt að horfa framhjá því að verðbólguvæntingar hafa dregist umtalsvert saman þótt það sé afleiðing einskiptis handstýrðra aðgerða. Mikil spenna á vinnumarkaði og launaskrið sýna áfram mikla undirliggjandi spennu í hagkerfinu og því mun bankinn fara með gát og enn er bið í vaxtalækkun að okkar mati,? segir greiningardeildin.

Hún segir að gengi krónunnar hafi gefið aðeins eftir frá því í byrjun nóvember en hefur hækkað á ný síðustu daga. ?Óverulegar breytingar hafa átt sér stað á vísitölu neysluverðs og mæld verðbólga hefur hjaðnað lítillega eða úr 7,2% í 7%. Viðskiptahallinn jókst og reyndist afbrigðilega mikill eða 80,8 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi.

Hallinn nemur þá 27% af landsframleiðslu og slær metið frá fyrri fjórðungi sem var 24%. Það dregur snarlega úr hagvexti um þessar mundir og reyndist vöxturinn aðeins 0,8% á þriðja ársfjórðungi samanborið við 2,6% vöxt á öðrum fjórðungi. Hagvöxtur náði hámarki á yfirstandandi þensluskeiði í 11,6% vexti á öðrum fjórðungi í fyrra,? segir greiningardeildin.