Icelandair hefur birt flutningstölur fyrir júlímánuð en þá flutti félagið 491 þúsund farþegar í millilandaflugi. Eru það 18% fleiri farþegar en í júlímánuði fyrir ári.

Þetta er mesti farþegafjöldi á einum mánuði frá stofnun félagsins. Var sætanýtingin 87,7% samanborið við 88,9% í júlí í fyrra og nam framboðsaukningin 22% á milli ára.

Í innanlandsflugi og flugi til Grænlands voru farþegarnir 35 þúsund í júlímánuði. Jókst það um 14% ef miðað er við árið 2015. Nam sætanýtingin 71,6% og lækkaði það um 5,9 prósentustig milli ára.

„Skýrist það að mestu af nýjum áfangastað á Grænlandi sem enn er verið að skapa markað fyrir. Fjöldi seldra blokktíma í leiguflugi var sá sami og á síðasta ári.  Fraktflutningar jukust um 1% frá því á síðasta ári. Fjöldi seldra gistinótta á hótelum félagsins jókst um 7% á milli ára. Herbergjanýting var 90,8% samanborið við 90,4% í júlí í fyrra,“ segir í fréttatilkynningu frá félaginu.