Vogunarsjóðurinn Citadel, sem Ken Griffin stýrir, skilaði hluthöfum sínum 16 milljarða dala hagnaði, eða sem nemur yfir 2.250 milljörðum króna á gengi dagsins. Um er að ræða mesta hagnað hjá nokkrum vogunarsjóði í sögunni, að því er Financial Times greinir frá.

Citadel, sem er með 54 milljarða dala í stýringu, skilaði 38,1% ávöxtun á helsta vogunarsjóði sínum og töluverðri ávöxtun af öðrum fjárfestingarafurðum sem samsvarar 16 milljarða hagnaði eftir þóknanagjöld samkvæmt rannsókn LCH Investments.

Citadel, sem Griffin stofnaði árið 1990, hagnaðist alls um 28 milljarða dala af viðskiptum sínum í fyrra. Vogunarsjóðurinn tók því um 12 milljarða dala, eða um 1.700 milljarða króna, í þóknanir og önnur gjöld. Starfsmenn sjóðsins eiga um fimmtungshlut í sjóðnum.

Hagnaðurinn, sem var drifinn áfram af veðmálum í ýmsum eignaflokkum, sló fyrra met John Paulson sem hagnaðist um 15,6 milljarða dala árið 2007, einkum af veðmáli sínu gegn undirmálslánum (e. subprime loans).

Ákveðnir vogunarsjóðir högnuðust mikið á veðmálum á skuldabréfamarkaðnum í fyrra en miklar lækkanir voru á verði bandarískra ríkisskuldabréfa.