Rekstur FL Group, móðurfélags og 14 dótturfyrirtækja, gekk vel á fyrri helmingi ársins. Velta var 20,1 milljarður króna og jókst um 6,4% frá sama tíma á síðasta ári. Hagnaður varð af starfseminni fyrir tekjuskatt að fjárhæð 2,3 milljarðar króna, í samanburði við 148 milljóna króna hagnað á síðasta ári. Afkoman hefur því batnað milli ára um tæpa 2,2 milljarða króna og hefur aldrei verið betri á fyrri helmingi árs í sögu félagsins. Þessa góðu afkomu má fyrst og fremst rekja til mikils árangurs af fjárfestingastarfsemi félagsins.

Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri FL Group, segir afkomuna endurspegla þær breytingar sem gerðar hafa verið á skipulagi og starfsemi félagsins á undanförnum árum. "Fjármunamyndun í hinum hefðbundna rekstri félagsins í flugi og ferðaþjónustu hefur gert okkur kleyft að færa mjög út kvíarnar og breyta ásýnd og afkomu FL Group. Ávallt hefur verið mikil árstíðasveifla í rekstri félagsins og venjulega tap á fyrra helmingi ársins, en með því að skjóta fleiri stoðum undir reksturinn með fjárfestingastarfsemi og flugvélaviðskiptum er afkoman á fyrstu sex mánuðum þessa árs miklu betri en hún hefur nokkru sinni verið áður."

Rekstrartekjur FL Group og dótturfyrirtækjanna fyrstu sex mánuðina eru 20,1 milljarður króna, en voru 18,9 milljarðar króna 2004 og aukast því um 6,4% milli ára. Rekstrargjöld voru 20,7 milljarðar króna og hækka um 8,8 % milli ára og var rekstrarafkoman án fjármagsliða tap að fjáhæð 679 milljónir króna. Þar með talin er gjaldfærsla vegna kaupréttar og hlutabréfagjafar til starfsfólks að andvirði 200 milljónir króna. Fjármagnsliðir voru hinsvegar jákvæðir um 3 milljarða króna og munar þar mest um óinnleystan söluhagnað af hlutabréfum í öðrum félögum.

Líkt og undanfarin ár var fjármunamyndun í starfseminni traust á fyrstu sex mánuðunum 2005. Handbært fé frá rekstri var rúmlega 4,2 milljarðar króna, en var 3,7 milljarðar króna fyrir sama tímabil 2004. Miklar breytingar urðu á efnahagsreikningi félagsins á fyrstu sex mánuðunum, sem má rekja til fjárfestingastarfsemi og flugvélaviðskipta. Eignir félagsins voru 30. júní samtals 69,5 milljarðar króna en voru 43,5 milljarðar á sama tíma 2004.

Mikill árangur af fjárfestingastarfsemi

Afkoma af fjárfestingastarfsemi félagsins sem fer fram í dótturfyrirtækinu FL Investment var mjög góð á fyrra helmingi ársins. Þann 30. júní var óinnleystur hagnaður vegna gengishækkunar hlutabréfaeignar félagsins 2,8 milljarðar króna, en frá þeim tíma til dagsins í dag hefur hlutabréfaeign félagsins hækkað um tæplega 3 milljarða króna. Stærstu eignir FL Investment eru hlutabréf í easyJet, Íslandsbanka og KB banka. Markaðsverðbréf í bókum félagsins eru að fjárhæð 15,4 milljarðar króna og hlutabréfaeign í framvirkum samningum nemur 7,8 milljörðum króna.

Aukin áhersla á flugvélaviðskipti

Aukin áhersla á flugvélaviðskipti FL Group var staðfest með nýju dótturfyrirtæki, Icelease, sem hefur samið um kaup eða sölu 27 flugvéla á fyrra helmingi ársins. Þar vega þyngst kaup á 15 Boeing 737-800 flugvélum sem koma til afhendingar frá Boeing 2006 og 2007. Þegar hefur verið gengið frá leigusamningi vegna fimm þessara véla og samningar um fimm til viðbótar eru á lokastigi. Söluhagnaður af flugvélum er um 200 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi og efnahagsreikningur stækkar frá áramótum um 9 milljarða króna vegna innborgana í tengslum við kaupin á Boeing 737 flugvélunum.

Rekstur flug- og ferðaþjónustufyrirtækja viðunandi

Rekstrarárangur dótturfyrirtækja í flug- og ferðaþjónustustarfsemi innan FL Group er viðunandi í erfiðu rekstrarumhverfi. Millilandaflug Icelandair skiptir þar höfuðmáli en starfsemi þess á fyrrihluta ársins einkenndist af miklum vexti

Á fyrri helmingi ársins óx framboð Icelandair, stærsta dótturfélags FL Group, um 12,3% frá á síðasta ári, farþegar voru 12,7% fleiri og sætanýting 76%, sem er 2,6% prósentustigum betri en á sama tímabili í fyrra. "Þessi árangur er vissulega góður, en afkoman er ívið lakari en við höfðum vonast eftir og lakari en á síðasta ári. Skiptir þar miklu máli að verulegur kostnaður féll á fyrri hluta ársins vegna hins mikla vaxtar í starfseminni, auk þess sem gera má ráð fyrir að eldsneytisreikningur Icelandair verði umtalsvert hærri á árinu í heild en hann var á síðasta ári", segir Ragnhildur Geirsdóttir.

Áherslur til framtíðar

Ragnhildur segir að afkomuhorfur FL Group fyrir árið í heild séu góðar og fjölbreytt verkefni séu framundan á síðari hluta ársins til að auka enn styrk félagsins. "Við erum að gera breytingar á öllum sviðum, í fjárfestingastarfsemi, flugvélaviðskiptum og rekstrarfélögum í flugi og ferðaþjónustu, til þess að styrkja stoðir FL Group. Fjárfestingastarfsemin fær aukið vægi, þar eru fjölmörg þróunarverkefni í vinnslu og við munum nýta sterka fjárhagsstöðu til vaxtar. Í flugvélaviðskiptum leitum við nýrra tækifæra, efnum til stefnumarkandi samstarfs við sterka aðila og erum með nýja samninga í burðarliðnum. Í flugi og ferðaþjónustu verður áherslan á vöxt og arðsemi. Við höfum sett okkur markmið um 1000 milljóna króna hagnað af rekstri Icelandair á næsta ári, við munum gera ráðstafanir til að auka arðsemi í ferðaþjónustufyrirtækjum, við sjáum 50% veltuaukningu í frakflugi með yfirtöku Bláfugls inn í FL Group og við stefnum þar á nýja markaði. Í leiguflugi er innleiðing nýrra flugvélategunda til skoðunar auk þess sem sótt er á nýja markaði með vöxt í huga. Jafnframt stefnum við að því að skjóta nýjum stoðum undir reksturinn með þátttöku í rekstri sem liggur utan við flugið og ferðaþjónustuna", segir Ragnhildur.