Methagnaður varð af rekstri Sparisjóðs Svarfdæla á síðasta ári. Hagnaður af rekstri sjóðsins nam 403 milljónum, borðið saman við 183 milljónir árið áður. Þannig var arðsemi eigin fjár 58,3% samanborðið við 36,4% árið áður. Eigið fé sparisjóðsins nam rúmum einum milljarði króna í árslok og hafði vaxið um 404 milljónir frá árinu áður eða um tæp 65%.

Hreinar vaxtatekjur lækkuðu milli ára úr 154 milljónum í 139 milljónir enda hefur vaxtamunur sparisjóðsins lækkað í 3,9% en var 6,1% árið áður. Aðrar rekstrartekjur voru 525 milljónir og hækkuðu um 286 milljónir frá í fyrra. Aðrar rekstrartekjur eru að stærstum hluta gengishagnaður og söluhagnaður af hlutabréfum.

Restrarkostnaður ársins 2005 nam 159 milljónir króna samanborðið við 128 milljónir árið áður. Afskriftareikningur útlána lækkaði hins vegar úr 42 milljónum 2004 í 20 milljónir 2005.

Friðrik Friðriksson, sparisjóðsstjóri, segir í tilkynningu félagsins að árið 2005 hafi verið sparisjóðnum mjög gott rekstrarár. Aðstæður á hlutabréfamarkaði hafi verið hagstæðar og það hafi mikið að segja fyrir Sparisjóð Svarfdæla eins og flestar fjármálastofnanir. Friðrik segir að rekstargjöld hafi hækkað milli ára meðal annars vegna þess að sparisjóðurinn hafi gefið samfélaginu í
Dalvíkurbyggð uppsetningu á sparkvelli sem kostaði rúmar 12 milljónir auk þess sem sjóðurinn hafi stutt við menningar- og æskulýðsstarfsemi meira en nokkru sinni.