Hagvöxtur í Kína mældist 11,9% á öðrum ársfjórðungi þrátt fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að reyna kæla hagkerfið, að því er fram kemur í opinberum hagtölum sem kínversk yfirvöld birtu í gær. Þetta er mesti vöxtur á einum ársfjórðungi sem mælst hefur í Kína síðan í árslok 1995, en þá stækkaði kínverska hagkerfið um 12,5%. Ráðamenn í Peking greindu frá því í gær að þeir hygðust ráðast í frekari stjórnvaldsaðgerðir til að koma í veg fyrir ofhitnun í hagkerfinu, en markmið ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir 10% hagvexti.

Það bendir fátt til annars en að hagvöxtur á núverandi ári verði meiri en 10% fimmta árið í röð. Hagfræðingar spá um 11% vexti á árinu en á fyrsta ársfjórðungi mældist hann 11,2%. Af þeim sökum styttist óðfluga í að Kína fari fram úr Þýskalandi og verði þriðja stærsta hagkerfi heimsins, á eftir Japan og Bandaríkjunum. Þjóðarframleiðsla í Kína á síðasta ári var 2,7 milljarðar Bandaríkjadala en í Þýskalandi nam hún hins vegar um 2,9 milljörðum dala.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 4,4% á ársgrundvelli í júní, sem er mesta hækkun þar í landi í meira en tvö ár, en verðbólgumarkmið stjórnvalda gerir ráð fyrir 3% verðbólgu. Stýrivextir í Kína hafa verið hækkaðir fjórum sinnum frá því í apríl á síðasta ári. Auk verðbólguþrýstings er ójafnvægi í milliríkjaverslun við helstu viðskiptalönd Kína og hátt orkuverð á heimsmarkaði meðal helstu áhættuþátta sem ógna stöðugleika í efnahagslífinu, að mati kínversku ríkisstjórnarinnar.

Tim Condon, aðalhagfræðingur hollenska bankans ING í Asíu, segir í samtali við AP-fréttastofuna að þrátt fyrir hugsanlega hættu á að hagkerfið ofhitni séu þessar nýju hagvaxtartölur góðar fréttir. Condon segir jafnframt að fjárfesting í Kína vaxi umfram áætlanir hins opinbera þar í landi og bendir á að fjárfesting í verksmiðjum og öðrum fastafjármunum (e. fixed assets) hafi aukist um tæplega 26% á fyrstu sex mánuðum þessa árs, en það er engu að síður 3,9% minna miðað við sama tíma og í fyrra.