Hagkerfi evrusvæðisins óx hraðar en það bandaríska 2017, annað árið í röð. Hagvöxtur á evrusvæðinu var 2,5% árið 2017 og var sá mesti í áratug meðal annars vegna aukinnar atvinnuvegafjárfestingar í Frakklandi. The Wall Street Journal greinir frá.

Að sama skapi hefur verið tilkynnt um aukinn hagvöxt í Bandaríkjunum og Kína árið 2017, eða 2,3% hjá fyrrnefnda ríkinu og 6,9% hjá því síðarnefnda.

Vísbendingar eru um að hagkerfi evrusvæðisins hafi vaxið enn hraðar í upphafi ársins 2018 en þó er búist við að nokkrar áskoranir, einkum er varða peningastefnuna, geti sett strik í reikning áframhaldandi hagvaxtaraukningar.

Hagur evrusvæðisins er talinn hvíla í auknum mæli á tveimur stórum hagkerfum sem hafa átt erfitt uppdráttar á undanförnum árum og glímt við lítinn hagvöxt en það eru Frakkland og Ítalía.