Hagvöxtur í Japan var 1,2% á fjórða ársfjórðungi, eða 4,8% á ársgrundvelli, og er það mesti vöxtur sem mælst hefur þar í landi í þrjú ár. Þessi hagvaxtaraukning er nokkuð meiri en flestir hagfræðingar höfðu spáð fyrir um og hefur styrkt marga í þeirri trú að það styttist í stýrivaxtahækkun hjá Japansbanka, en vextir hans hafa haldist óbreyttir í 0,25% síðan í júlí á síðasta ári. Hagvöxtur í Japan hækkaði því lítillega á nýliðnu ári frá því árið 2005, eða frá 1,9% upp í 2,2%.

Skiptar skoðanir eru á meðal hagfræðinga um hversu heppilegt það væri ef Japansbanki myndi ákveða að hækka stýrivexti sína, en bankinn mun taka ákvörðun um það í næstu viku. Hins vegar benda sumir þeirra á að það væri mjög óskynsamlegt af bankanum að hækka vexti í ljósi þess að einkaneysla í Japan á enn eftir að taka við sér, þrátt fyrir að almenningur hafi meira fé á milli handanna en áður. Einkaneysla minnkaði á þriðja ársfjórðungi um 1,1%, en tók aftur við sér núna og hækkaði um 1,1% og jókst því um samtals 0,6% á síðasta ári.

Japanska ríkisstjórnin er aftur á móti mjög andsnúin því að Japansbanki hækki vexti sína, sem gæti grafið undan markmiðum hennar um að auka hagvöxt enn frekar. Yasuhisa Shiozaki, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sagði að bankinn ætti að taka viðeigandi ákvörðun, en á sama tíma að taka tillit til efnahagsstefnu stjórnvalda. "Við búumst við því að Japansbanki muni ekki eingöngu horfa á hagvöxtinn, heldur einnig til annarra þátta og hlusti á margvísleg viðhorf," sagði Shiozaki.

Nikkei 225 hlutabréfavísitalan hækkaði um 0,8% í gær eftir að stjórnvöld greindu frá því að hagvöxtur hefði hækkað umfram væntingar og hefur ekki verið hærri síðan í maí árið 2000. Yenið brást einnig sterklega við og styrkti sig bæði gagnvart Bandaríkjadal og evru.