Reiknað er með að hagvöxtur á Norðurlöndum verði hæstur á Íslandi um 6% en lægstur í Finnlandi eða rúmlega 2% árið 2005. Á næsta ári er gert ráð fyrir að hagvöxturinn verði að meðaltali svipaður og í ár á Norðurlöndum eða tæplega 3% og Ísland verður áfram í fararbroddi með 4,6%. Þessar hagvaxtarhorfur á Norðurlöndum eru hærri en meðaltal hagvaxtar á Evrusvæðinu þar sem reiknað er með hann verði undir
2% í ár og á næsta ári.

Þessar upplýsingar ásamt öðrum má sjá í nýútkominni skýrslu norrænu efnahagsnefndarinnar, Ekonomiska utsikter i Norden 2006 sem lögð var fram á nýafstöðnum fundi norrænu fjármálaráðherranna í Reykjavík.

Framvinda efnahagsmála á Norðurlöndum hefur að undanförnu einkennst af hagvexti sem er nálægt jafnvægisvexti, minnkandi atvinnuleysi, lágri verðbólgu og afgangi opinberra fjármála. Á þetta er bent í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Talið er að hagvöxtur á heimsvísu hafi verið um 5% árið 2004 sem er sá mesti síðastliðin 30 ár en hann var borinn uppi af miklum hagvexti í Bandaríkjunum, Kína og öðrum Asíuríkjum. Þessi jákvæða framvinda hefur aukið utanríkisverslun, sérstaklega útflutning flestra Norðurlandanna, sem hefur örvað fjárfestingu og neyslu heima fyrir. Þjóðhagslegur sparnaður verður áfram hár, þrátt fyrir vaxandi þjóðarútgjöld, sem endurspeglast í jákvæðum viðskiptajöfnuði að Íslandi undanskildu, en þar gætir áhrifa stóriðjuframkvæmda.

Þrátt fyrir góðan hagvöxt hefur eftirspurn eftir vinnuafli látið á sér standa, nema á Íslandi, m.a. vegna kröftugs vaxtar á framleiðni vinnuafls. Því er við að bæta að atvinnuleysi sem hlutfall af mannafla á Norðurlöndum hefur að meðaltali verið nokkuð lægra en á Evrusvæðinu og í aðildarríkjum OECD og reiknað er með að svo verið áfram á þessu og næsta ári. Í hagstjórn leggja öll Norðurlöndin ríka áherslu á sjálfbæran hagvöxt, mikla atvinnuþátttöku ásamt stöðugleika í verðlagsmálum og aðhaldssemi í ríkisfjármálum.

Verðbólga er mjög lítil á Norðurlöndunum nema á Íslandi, en þar búa tímabundnar aðstæður að baki. Að meðaltali er reiknað með að tekjuafgangur í opinberum rekstri Norðurlandanna verði um 4% af landsframleiðslu í ár og á næsta ári. Mestur er afgangurinn í Noregi vegna tekna ríkissjóðs af framleiðslu á olíu, 15,6% af landsframleiðslu í ár, en minnstur í Svíþjóð eða um 1,4% af landsframleiðslu. Á sama tíma er búist við að afgangurinn verði neikvæður um 3% að meðaltali á Evrusvæðinu.

Byggt á vefriti Fjármálaráðuneytisins.