Síminn hagnaðist um 1.057 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi, sem er um 4,2% aukning frá sama tímabili í fyrra þegar félagið skilaði 1.014 milljóna hagnaði. Tekjur Símans lækkuðu hins vegar um 0,6% á milli ára og námu nærri 6,4 milljörðum. Þetta kemur í uppgjöri sem félagið birti eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst um 6% á milli ára og nam 2.974 milljónum króna. Handbært fé frá rekstri eftir vexti og skatta nam 2.389 milljónum samanborið á þriðja fjórðungi en var 1.927 milljónir árið áður. EBIT hagnaður á þriðja fjórðungi fór úr 1.338 milljónum í 1.526 milljónir á milli ára. Í tilkynningu bendir Orri Hauksson, forstjóri Símans, á að EBITDA og EBIT hagnaður félagsins hafi aldrei verið meiri á einum fjórðungi. „Ástæða þessa góða árangurs er einföld; stýring kostnaðar.“

Vaxtaberandi skuldir að leiguskuldbindingum meðtöldum námu 32,6 milljörðum í lok september en voru 21,5 milljarðar í árslok 2020. Eiginfjárhlutfall Símans var 45,0% í lok þriðja fjórungs en alls var eigið fé 31,3 milljarðar.

Tuttugu ára heildsölusamningur við Mílu

Um liðna helgi tilkynnti Síminn um að gengið hafi verið frá kaupsamningi um sölu á dótturfélaginu Mílu, til franska sjóðastýringafyrirtækisins Ardian. Heildarvirði sölunnar (e. enterprise value) nam 78 milljörðum króna, að meðtöldum skuldum Mílu sem yfirteknar verða af kaupanda, sem er um 17,1-föld EBITDAaL félagsins. Bókfært virði Mílu er um 11 milljarðar króna.

Síminn fær greitt á efndadegi um 44 milljarða króna í reiðufé og 15 milljarða króna í formi skuldabréfs sem Síminn veitir kaupanda til þriggja ára. Skuldabréfið er í íslenskum krónum og er framseljanlegt.  Áætlaður söluhagnaður er rúmlega 46 milljarðar króna að teknu tilliti til kostnaðar vegna viðskiptanna.

Í fjárfestakynningu Símans segir að Síminn geri tuttugu ára heildsölusamning við Mílu. Um sé að ræða ítarlegan samning sökum tímalengdar en að hann muni byggja „alfarið“ á núverandi viðskiptasambandi félaganna. Þá er bent á að stærstur hluti viðskipta Símans og Mílu er byggður á verðákvörðunum Fjarskiptastofu. Samningar um þjónustu sem ekki er reglusett tengist í aðalatriðum farsíma- og netrekstri sem Míla keypti af Símanum fyrr á þessu ári.

Jafnframt segir að salan á Mílu hafi mikil áhrif á efnahagsreikning félagsins en hafi ekki áhrif á rekstrarafkomu Símans í ár. EBITDA spá Símans fyrir árið 2021 liggur á bilinu 5,4-5,6 milljarða króna.

Úr fjárfestakynningu Símans. Hér eru sýnd áhrif sölunnar á Mílu á helstu stærðir efnahagsreiknings Símans. Meðal annars má sjá að handbært fé áttfaldast, eða hækkar úr 5,9 milljörðum í 47,7 milljarða.

„Góðar fréttir fyrir land og þjóð“

„Þriðji ársfjórðungur var ábatasamur í rekstri Símans og Mílu. Rekstrarafgangur (EBITDA og EBIT) hefur aldrei verið meiri á einum fjórðungi. Ástæða þessa góða árangurs er einföld; stýring kostnaðar,“ segir Orri Hauksson , forstjóri Símans.

„Tekjumyndun er hins vegar ærið verkefni enda fjarskiptamarkaður á Íslandi einn öflugasti samkeppnismarkaður landsins. Tekjur vegna gagnaflutnings og sjónvarpsþjónustu standa í stað milli ára, en hægagangur við framleiðslu sjónvarpsefnis á heimsvísu heldur meðal annars aftur af tekjuvexti, en temprar einnig kostnað. Vörusala minnkar, enda hafa Íslendingar aftur fengið færi á að kaupa vörur í heimsóknum sínum erlendis. Farsímatekjur eru í vexti á ný, sem er gleðiefni.

Eftir lok þriðja ársfjórðung samdi Síminn við franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian um sölu á dótturfyrirtækinu Mílu. Eins og fram hefur komið er heildarvirði sölunnar (e. EV) 78 milljarðar króna, að meðtöldum skuldum Mílu sem yfirteknar verða af kaupanda. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og koma væntanlega til framkvæmda á fyrri hluta næsta árs. Ardian er stór langtímafjárfestir í innviðum á sviði fjarskipta, orku og samgangna, sérstaklega í Evrópu. Hefur fyrirtækið lýst því yfir að það hyggist bjóða íslenskum lífeyrissjóðum með sér í kaupin á Mílu, flýta uppbyggingu 5G og fjölga ljósleiðaratengingum á landsbyggðinni hraðar en nú er. Við teljum þessa erlendu fjárfestingu vera mjög góðar fréttir fyrir land og þjóð.“