Rekstrarhagnaður (EBIT) Marels á öðrum ársfjórðungi 2006 nam 4,3 milljónum evra (399 milljónir króna) sem er 9,3% af tekjum samanborið við 3,3 milljónir (262 milljónir króna) í fyrra. Í tilkynningu segir að þetta sé mesti rekstrarhagnaður í einum ársfjórðungi til þessa.

Hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 797 þúsund evrum (74 milljónir króna), samanborið við 2.104 þúsund evrur (195 milljónir króna) á tímabilinu fyrir ári síðan.

Sala annars ársfjórðungs 2006 nam 46,6 milljónum evra (4,3 milljarðar króna) samanborið við 33,9 milljónir (2,7 milljarðar króna) á sama tíma árið áður, salan jókst því um 38%.

?Rekstur félagsins á öðrum ársfjórðungi gekk vel. Ánægjulegt er að sjá að vöxtur tekna er um 38% samhliða því að rekstarhagnaðinum (EBIT) hefur verið komið í ásættanlegt horf (9,3% af sölu) eftir slakan árangur í erfiðu rekstarumhverfi síðustu ársfjórðunga þar á undan," segir Hörður Árnason forstjóri í tilkynningu.