Arðgreiðslur um allan heim drógust saman um meira en hundrað milljarða dollara á öðrum fjórðungi ársins. Þetta er mesta hlutfallslækkun arðs síðan í fjármálakrísunni árið 2009.
Heildarútgreiðsla til hluthafa minnkaði um 22% og nam 382,2 milljörðum dollara, eða um 52.763 milljörðum króna á ársfjórðungnum, sem er lægsta fjárhæð á einum ársfjórðungi síðan 2012 samkvæmt eignastýringarfyrirtækinu Janus Henderson. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að arðgreiðslur falli um 19% í ár samkvæmt bestu sviðsmynd sinni en 25% í þeirri verstu.
„Þrátt fyrir niðurskurðinn áætlum við að arðgreiðslur verði umfram þúsund milljarða dollara í ár og á næsta ári,“ hefur Financial Times eftir Jane Shoemake, fjárfestingastjóra hjá Jane Henderson.
Eignastýringarfyrirtækið segir að arðgreiðslur á öðrum ársfjórðungi hafi minnkað í öllum heimsálfum nema í Norður-Ameríku, sem þeir rekja til seiglu kanadískra fyrirtækja. Mesti samdráttur arðgreiðslan var í Evrópu og Bretlandi.
Sjá einnig: Helmingur FTSE 100 fyrirtækja lækka arð
Fyrirtæki í Bretlandi greiddu út 15,6 milljarða dollara frá apríl til júní, samanborið við 34 milljarða dollara á sama tímabili í fyrra. Arðgreiðslur í Frakklandi lækkuðu einnig úr 38,4 milljörðum í 13,3 milljarða dala milli ára.
Meðal fyrirtækja sem hafa hætt við eða dregið úr arðgreiðslum eru Royal Dutch Shell , Boeing, Westpac, Lloyds Bank, Barclays og Rolls-Royce.