*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Erlent 16. febrúar 2020 15:15

Mesti samdráttur frá hruni

Spenna í alþjóðaviðskiptum og minni eftirspurn í greinum sem treysta á fraktflug leiddi til fyrsta samdráttar í sjö ár.

Ástgeir Ólafsson
Ein af Boeing 747 fraktvélum Cargolux eins stærsta fraktflugfélags heims.
Haraldur Guðjónsson

Umfang fraktflugs á alþjóðavísu dróst saman um 3,3% á árinu 2019 samkvæmt skýrslu sem alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, birtu í byrjun vikunnar. Er þetta í fyrsta sinn frá árinu 2012 sem samdráttur verður í fraktflugi auk þess sem samdrátturinn var sá mesti frá árinu 2009. 

Samdráttur varð í öllum heimsálfum fyrir utan Afríku þar sem umfang fraktflugs jókst um 7,4% milli ára. Mestur samdráttur varð hins vegar í Austur-Asíu eða 5,7% og 4,8% í Mið-Austurlöndum á mðean hann nam 1,8% í Evrópu, 1,5% í Norður Ameríku og 0,4% í Suður-Ameríku. 

Samkvæmt skýrslu IATA skýrist samdrátturinn m.a. af spennu í alþjóðaviðskiptum, þá sérstaklega milli Bandaríkjanna og Kína, minni eftirspurn í greinum sem treysta á fraktflug auk þess sem minni bjartsýni meðal neytenda og fyrirtækja hafði einnig áhrif. 

IATA gerir ráð fyrir 2% vexti í fraktflutningum á þessu ári en sú spá byggir þó á þeirri forsendu að alþjóðaviðskipti taki við sér á nýjan leik auk þess sem hún gerir ekki ráð fyrir ófyrirséðum áhrifum af útbreiðslu kórónaveirunnar á heimshagkerfið sem hefur nú þegar haft töluverð áhrif á fraktflug í heiminum. 

Stikkorð: Fraktflug Cargo