Samdráttur á öðrum ársfjórðungi þessa árs nam 9,3% að raungildi borið saman við sama tímabil á síðasta ári. Aldrei hefur meiri samdráttur mælst á einum ársfjórðungi síðan ársfjórðungslegar mælingar hófust hér á landi. Þetta kemur fram í þjóðhagsreikningum Hagstofunnar sem birtir voru í dag.

Að sjálfsögðu liggur orsökin nokkuð glögg fyrir en það er heimsfaraldur kórónaveirunnar. Takmarkanir á ferðalögum höfðu veruleg áhrif á bæði inn- og útflutning þjónustu en einnig hafði veiran áhrif á eftirspurn af ýmis konar vöru og þjónustu. Til að mynda dróst heildarfjöldi vinnustunda saman um 11,3% á tímabilinu.

Þjóðarútgjöld, það er samtala neyslu og fjárfestingar, dróst saman um 7,1% borið saman við sama tímabil árið 2019. Samdráttur í einkaneyslu mældist 8,3%, vöxtur samneyslu mældist 3,0% en fjármunamyndun dróst saman um 18,7%. Útflutningur dróst saman um ekki nema 38,8% en samdráttur í innflutningi að sama skapi var 34,8%. Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 5,4 milljarða króna.

Samanborið við önnur Norðurlönd er samdrátturinn mestur hérna á Íslandi. Hann var 4,5% í Finnlandi, 5,1% í Noregi, 7,4% í Danmörku og að endingu 8,3% í Svíþjóð. Samdrátturinn varð hins vegar enn meiri í þeim ríkjum sem veiran lék hvað verst. Til að mynda var hann ríflega fimmtungur í Bretlandi, 18,5% á Spáni og kringum 14% á Spáni, í Ítalíu og Frakklandi. Í flestum tilfellum ytra er um bráðabirgðatölur að ræða.

Á tímabilinu dróst einkaneysla saman 8,3% borið saman við sama tímabil árið 2019. Gætir þar augljósra áhrifa af heimsfaraldri Covid-19 og þeirra aðgerða sem gripið var til hér á landi í þeim tilgangi að sporna gegn útbreiðslu hans. Samdráttur í útgjöldum Íslendinga erlendis nam 83,2% að raungildi á tímabilinu en áhrifa til lækkunar einkaneyslu gætir í flestum neysluflokkum. Í nokkrum undirliðum mældist þó aukning, svo sem í neyslu lyfja og annarra lækningarvara, rafrænni þjónustu og áfengis.