Hagnaður Toyota hefur dregist gríðarlega saman á árinu og stefnir allt í mesta samdrátt í 13 ár. Toyota tilkynnti í dag um að hagnaður síðasta ársfjórðungs hafi dregist saman sem nemur 70 af hundraði.

Breska blaðið Guardian greinir frá þessu á vefsíðu sinni. Þar segir jafnframt að Toyota, sem er stærsti bílaframleiðandi Japans, sjái fram á að rekstrarhagnaður muni dragast saman um 63 af hundraði fyrir lok marsmánuðar 2009. Búist er við að rekstrarhagnaður muni þá nema 600 milljarða japanskra jéna.

Félagið hefur sent frá sér afkomuviðvörun.

Tekjuafgangi upp á 550 milljarða japanskra jéna er spáð fyrir árið. Það myndi vera fall um 68 af hundraði miðað við þá 1,72 milljarða japanskra jéna sem félagið skilaði í tekjuafgang á síðasta ári.

Ef fer sem horfir er útilit fyrir að nú sjái fyrir endann á nær áratugalangri velgengni Toyota sem hefur skilað hagnaði síðastliðin átta ár. Toyota hefur verið á hraðri siglingu í að verða stærsti bílaframleiðandi heims.