*

föstudagur, 3. apríl 2020
Innlent 16. september 2019 16:50

Mesti samdráttur kortaveltu í sex ár

Velta innlendra greiðslukorta dróst saman um 1,1% að raunvirði milli ára í ágúst.

Ritstjórn
Íslendingar hafa haldið þétt um budda í sumar.
Haraldur Guðjónsson

Kortavelta Íslendinga dróst saman um 1,1% að raunvirði í nýliðnum ágúst miðað við sama mánuð fyrir ári síðan. Þetta er mesti samdráttur sem mælst hefur síðan í júní 2013, að því er fram kemur í nýrri Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans. 

Veltan dregst saman í bæði verslunum innanlands og erlendis. Hér á landi dróst veltan á föstu verðlagi saman um 0,3% í ágúst miðað við sama tíma í fyrra og  4,4% erlendis miðað við fast gengi Till samanburðar var vöxturinn 17% erlendis og 5% innalands í ágúst á síðasta ári. 

Ef horft er til sumarsins í heild dróst kortavelta Íslendinga erlendis saman um 3,3% milli ára. Til samanburðar var vöxturinn 18% yfir sumarmánuðina í fyrra og tæp 36% yfir sumarmánuði ársins 2017. Hér á landi jókst kortavelta Íslendinga um 1,2% í verslunum yfir sumartímann, sem er þó mun minni vöxtur en á sumarmánuðum síðustu ára. 

„Síðan í maí hefur mælst stöðugur samdráttur í kortaveltu Íslendinga erlendis sem helst í hendur við færri utanlandsferðir og ef til vill minni netverslun. Erfiðara er þó að skýra samdráttinn í veltu hér á landi yfir sumartímann. Í Hagsjá1 um kortaveltu síðasta mánaðar var fjallað um að heimilin væru hugsanlega að halda aftur af sér þegar kæmi að stórkaupum þar sem væntingar til atvinnu- og efnahagsástands færu dvínandi, og má vera að hér sjáum við áframhald af þeirri þróun þar sem aukinnar hófsemi gætir í neyslu. 

Á öðrum ársfjórðungi jókst kortavelta Íslendinga alls að raunvirði um 1,6% milli ára til samanburðar við 1,3% aukningu á fyrsta ársfjórðungi. Þróunin í júlí og ágúst bendir til að vöxturinn verði hægari á næsta ársfjórðungi og þar með vöxtur einkaneyslu minni. Hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi var að miklu leyti drifinn áfram af vexti einkaneyslu en flestir spáaðilar, að okkur meðtöldum, gera ráð fyrir því að hægja muni verulega á vexti einkaneyslu á næstunni og styður þróun sumarsins við þá kenningu,“ segir í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans. 

Stikkorð: verslun Kortavelta