Fjöldi ferðamanna í maí var rúmlega 111 þúsund og dróst saman um 24% í maí samanborið við maí 2018, eða um tæplega 36 þúsund ferðamenn. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar .

„Er þetta mesti samdráttur erlendra ferðamanna og erlendra farþega innan sama mánaðar síðan talningar hófust. Næstmesti samdráttur í fjölda ferðamanna innan sama mánaðar var í apríl 2019 borið saman við apríl 2018, en þá fækkaði ferðamönnum um 25 þúsund og hlutfallsleg lækkun á milli ára var 19%. Í apríl var 5% samdráttur á heildargistinóttum miðað við sama mánuð árið áður. Gistinóttum á hótelum og gistiheimilum fækkaði um 4% á meðan gisting greidd í gegnum vefsíður á borð við Airbnb dróst saman um 18% sé miðað við apríl 2018. Nýting hótelherbergja lækkaði um 5% á milli ára og var 49% í apríl 2019," segir í fréttinni.

„Launþegum í atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu fækkaði um 5%, úr 27.300 í 25.900, sé mars síðastliðinn borinn saman við sama mánuð ári áður. Mest fækkun launþega átti sér stað í farþegaflutningum með flugi. Þar fækkaði starfsmönnum úr 4.700 í mars 2018 í 3.900 í mars 2019, eða um 18%."