*

þriðjudagur, 17. maí 2022
Erlent 27. október 2021 15:04

Mesti tekjuvöxtur Google í 14 ár

Hagnaður Alphabet, móðurfélags Google, á þriðja ársfjórðungi var um þrefalt meiri en fyrir faraldurinn.

Sundar Pichai, forstjóri Alphabet
epa

Alphabet, móðurfélag Google, skilaði mesta söluvexti í meira en fjórtán ár og nærri tvöfaldaði hagnað á þriðja ársfjórðungi. Aukin áhersla smærri fyrirtækja á auglýsingar á netinu vegna breyttrar kauphegðunar frá því að Covid-faraldurinn hófst hefur keyrt upp auglýsingatekjur hjá Google.

Tekjur Alphabet námu 65,1 milljarði dala á fjórðungnum, sem er um 41% hækkun frá fyrra ári. Venjulega nær félagið slíkum vexti á tveggja ára tímabili, að því er kemur fram í umfjöllun WSJ. Sala á auglýsingum á Youtube jókst um 43% á milli ára og nam 7,2 milljörðum dala á síðasta fjórðungi.

Nýjar persónuverndarreglur Apple hafa gert auglýsendum og samfélagsmiðlum á borð við Facebook erfitt fyrir að vakta hversu vel auglýsingar ná til notenda. Fyrir vikið hafa ýmis fyrirtæki auglýst í auknum mæli í gegnum Google.

Hagnaður netrisans nam 21 milljarði dala sem er um þrefalt meira en á þriðju ársfjórðungum 2018 og 2019. Hlutabréf Alphabet hafa hækkað um 3,6% í dag og markaðsvirði netrisans nemur um 1,9 þúsund milljörðum dala.

Tekjur Microsoft ekki aukist hraðar síðan 2014

Microsoft skilaði einnig uppgjöri í gær en tekjur hugbúnaðarfyrirtækisins námu 45,3 milljörðum dala á þriðja fjórðungi og jukust um 22% frá fyrra ári, sem er mesti tekjuvöxtur félagsins frá árinu 2014. Tekjur skýjaþjónustusviðs Microsoft jukust um 36% á milli ára.

Félagið hagnaðist um 20,5 milljarða dala en greiningaraðilar höfðu spáð því að afkoma félagsins yrði jákvæð um 15,7 milljarða dala, samkvæmt Financial Times

Stikkorð: Microsoft Google Alphabet