Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var um 33 milljarðar króna og hefur ekki verið meiri í þrettán ár. Undanfarin ár hefur þjónustuafgangur yfirleitt vegið þyngra en vöruskiptahalli en það hefur breyst í faraldrinum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka .

Í fyrsta sinn frá árinu 2007 mældist halli á þjónustujöfnuði við útlönd en hann var um 11 milljarðar króna á fjórðungnum. Þetta er veruleg breyting frá fjórðungnum á undan þegar að talsverður afgangur mældist á þjónustujöfnuði þrátt fyrir tekjuhrun í ferðaþjónustunni. Ástæðuna fyrir afganginum má rekja til mikilla hugverkatekna í lyfjaiðnaðinum.

Það er aftur búist við halla á þjónustujöfnuði á öðrum fjórðungi en að hann verði þó minni en á fyrsta ársfjórðungi. Gert er ráð fyrir því að vöru- og þjónustujöfnuður verði kominn í jafnvægi við lok árs eftir því sem fleiri ferðamenn koma hingað til lands. Í kjölfarið er gert ráð fyrir afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum þegar að ferðaþjónustan tekur við sér aftur.