Eftir miklar lækkanir á hlutabréfamörkuðum í gær mátti sjá kúvendingu á Wall Street. Við lokun markaða í gær hafði S&P 500 vísitalan hækkað um 0,3% en þegar mest lét í gær hafði hún lækkað um 4%. Svo virðist sem fjárfestar hafi því séð tækifæri í lækkun hlutabréfa.

Um 4,4 prósenta munur var á milli hæsta og lægsta stigs S&P 500 vísitölunnar í gær. Ekki hefur mælst stærri sveiflur á vísitölunni á einum degi frá því í mars 2020 eða um það leyti þegar markaðir hristust verulega til vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, að því er kemur fram í frétt Financial Times . Þá náðu sveifluvísitölur (e. volatility indexes) sínu hæsta stigi síðan í október 2020, rétt fyrir forsetakosningar Bandaríkjanna og þegar fyrstu fréttir bárust um virkni Pfixer og Moderna bóluefnanna.

Þrátt fyrir sveifluna upp á við þegar leið á gærdaginn þá hafa 137 af hlutabréfum í S&P 500 lækkað um 20% á stuttum tíma, þar á meðal fyrirtæki á borð við Moderna, Twitter og Netflix. Síðasta vika var sú versta hjá S&P 500 frá því í mars 2020.

Meðal ástæðna fyrir lækkunum á hlutabréfamörkuðum, að sögn greinanda hjá JPMorgan, eru auknar líkur á að stærstu seðlabankar heims dragi úr stuðningsaðgerðum og hefji vaxtahækkunarferli, áhyggjur yfir áhrifum Ómíkron-afbrigðisins á efnahagslífið ásamt því að fylgst er grannt með hernaðarumsvifum Rússa við landamæri Úkraínu.

Öll félög á aðalmarkaði íslensku Kauphallarinnar lækkuðu í gær og úrvalsvísitalan féll um 2,2%. Íslenski markaðurinn opnaði aftur rauður í dag.