Enn virðist lítið lát á miklum halla á utanríkisviðskiptum þrátt fyrir gengislækkun krónu, enda innflutningur tengdur stóriðju nú í hámarki, segir greiningardeild Glitnis.

?Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar var útflutningur í júní 22,5 milljarðar króna en innflutningur 38,1 milljarðar króna og nam vöruskiptahalli í mánuðinum því 15,6 milljörðum króna. Það er mesti vöruskiptahalli í einum mánuði síðan Hagstofan hóf að birta mánaðartölur 1989," segir greiningardeildin.

Vöruskiptahallinn nemur um 68 milljörðum frá áramótum, miðað við bráðabirgðar tölurnar og hefur hann nánast tvöfaldast frá sama tímabili í fyrir ári.

?Heildarverðmæti útflutnings á fyrri hluta ársins var tæpir 113 milljarðar króna sem jafngildir 3% aukningu frá fyrra ári, reiknað á föstu gengi. Verðmæti innflutnings á sama tímabili var hins vegar rúmlega 180 milljarðar króna og nam aukningin milli ára u.þ.b. 23% á föstu gengi," segir greiningardeildin.

Sundurliðun á tölum júnímánaðar hefur ekki verið kunngerð en á undanförnum mánuðum hefur samsetning innflutnings breyst í þá átt að þáttur fjárfestingar- og rekstarvara er að aukast á kostnað neysluvara.

?Raunar virðist sem innflutningur bifreiða og annarra varanlegra neysluvara fari nú minnkandi miðað við sama tíma í fyrra. Líklegt er að nokkuð dragi úr vöruskiptahalla á seinni hluta ársins eftir því sem hægir á einkaneyslu og útflutningur á áli eykst jafnt og þétt," segir greiningardeildin.