Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, formaður Þingflokks Sjálfstæðisflokksins og forseti Alþingis eru nú  á fundi í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, yfirgaf húsið fyrir skömmu og vildi ekki tjá sig við fjölmiðla.

Skömmu áður yfirgaf Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, fundinn. "Við skulum sjá hvernig þetta þróast," sagði Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, þegar hann var spurður hvort bankakerfi landsins geti starfað eðlilega á morgun komi ekki til útspil frá ríkisstjórninni. Hann sagði að tilkynnt yrði um aðgerðir ríkisstjórnarinnar um leið og þær liggja fyrir. Björgvin svaraði í engu spurningum um hvort verið væri að útvega lán frá erlendum bönkum og hvort eignir banka erlendis yrðu færðar til landsins. Hann sagði allar þessar leiðir til skoðunar og allir væru einhuga um að sigrast á vandanum.

Hann sagði að framundan væri að félagar hans úr ríkisstjórninni funduðu með verkalýðsforystunni.

Björgvin sagði að sitt verkefni væri nú að vinna með fjármálakerfinu að því að teikna upp lausn en aðrir ráðherrar væru að einbeita sér að öðrum lausnum.

Um það hvort yfirlýsing um aðildarviðræður við ESB væri hluti af þeirri lausn sem er í undirbúningi sagði Björgvin: "Þið eruð væntanlega að vísa í fund sem haldinn var í gær með verkalýðsforystunni en ég sat ekki á. Þetta hefur ekkert verið rætt á fundum sem ég hef setið." Björgvin sagði að allir þekktu að Samfylkingin væri hlynnt ESB-aðild en Sjálfstæðisflokkurinn á móti.

Auk stjórnmálamanna eru nú í Ráðherrabústaðnum hagfræðingarnir Jón Steinsson, Friðrik Már Baldursson og Tryggvi Þór Herbertsson.