Ál- og kísilverð hafa hækkað mikið það sem af er ári, sem kemur sér vel fyrir íslenskan efnahag. Hækkandi olíuverð kemur sér hinsvegar verr.

Hrávörumarkaðir hafa verið á miklu flugi frá síðasta hausti, en Sigurður Jóhannesson forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands segir helstu áhrif hrávöruverðs á Ísland vera í gegnum olíu- og álverð.

Í fjórðungsuppgjöri Elkem fyrir fyrsta ársfjórðung kemur fram að kísilverð í Kína hafi hækkað og í lok fjórðungsins verið orðið „aðlaðandi“.

Bæði kísill og kísiljárn hafi hækkað jafnt og þétt yfir fjórðunginn og verðið sé nú það hæsta í mörg ár. Félagið – sem framleiðir kísiljárn á Grundartanga – hækkaði í kjölfarið verð sitt á kísli á heimsvísu í mars. Álverð stendur nú í tæpum 2.500 dölum á tonnið og er 39% hærra en í byrjun síðasta árs og um 72% hærra en á lágpunktum síðasta vors í apríl og maí.

Fyrir utan einn verðtopp árið 2018 hefur verðið ekki verið á svipuðum slóðum síðan 2011, sem eins og gefur að skilja eru afar góðar fréttir fyrir íslenska stóriðju og efnahag, en stór hluti raforkuverðs í samningum álveranna við Landsvirkjun, OR og HS Orku er tengdur álverði.

Olíuverð náði sama verði og fyrir faraldur snemma á þessu ári, og hefur nú ekki verið hærra síðan haustið 2018. Samtök olíuframleiðenda auk fylgihnatta þeirra (OPEC+) ákváðu á fundi á föstudag að auka framleiðslu frá og með næsta mánuði, en framlengdu á sama tíma samkomulag um þær hömlur sem þó verða á framleiðslu. Athygli vakti þó að Sameinuðu arabísku furstadæmin voru mótfallin framlengingu samningsins, en samþykktir samtakanna þurfa einróma samþykki til að taka gildi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .