*

þriðjudagur, 19. nóvember 2019
Innlent 27. september 2019 15:07

Mestu breytingar í áratug

Nýtt skipurit Landsspítalans felur í sér mestu skipulagsbreytingar á starfsemi spítalans í áratug.

Ritstjórn
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Aðsend mynd

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir í samtali við Viðskiptablaðið að breytingarnar sem kynntar voru á skipulagi spítalans í dag hafi verið lengi í farvatninu. 

„Það er eðlilegt að skipulag og skipurit stofnana séu endurskoðuð reglulega í samræmi við breytingar á verkefnum og eðli þjónustunnar. Síðastliðin áratug hafa töluverðar breytingar átt sér stað í umhverfi okkar og því má segja að aðdragandinn hafi verið langur. 

Fyrir utan þessi almennu rök um mikilvægi þess skipulag sé tekið reglulega til endurskoðunar með það fyrir augum að auka skilvirkni og gæði þjónustunnar þá eru breytingarnar nú hluti af vegferð sem hugsuð er lengra til framtíðar,“ segir Páll. 

Megin breytingin á skipuritinu felst í því að starfsemi sjö klínískra sviða og rekstrarsviðs verður skipt milli þriggja sviða; meðferðasviðs, aðgerðasviðs og þjónustusviðs.

„Við erum að færa saman einingar og kjarna, sem vinna náið saman, undir framkvæmdastjórann. Þetta þýðir að það fækkar töluvert í yfirstjórn spítalans og í kjölfarið verða stöður níu framkvæmdastjóra lagaðar niður og í staðinn verða framkvæmdastjórarnir þrír,” segir Páll, en bætir við hagræðing sé ekki höfuðmarkmiðið með breytingunum. 

„Við erum horfa til framtíðar. Eftir fimm ár liggur til að mynd fyrir að við munum flytja inn í nýja meðferðar- og rannsóknarkjarna og þar munum við þurfa að vinna töluvert öðruvísi en við gert hingað til. Breytingarnar núna taka mið af þessu og gera okkur kleift að laða okkur strax að nýju umhverfi. Það er vont að þurfa að flytja og breyta skipulaginu á sama tíma, eins og dæmin sanna.  Þá erum við að leggja aukna áherslu á klínískaþjónustu og efla vísinda- og menntastarf innan spítalans.“

Páll segir að með aðgerðunum nú sé sömuleiðis verið að skapa vettvang fyrir undirbúning frekari breytingar. “Nýr framkvæmdastjóri kemur til starfa núna í október og það eru stór verkefni framundan sem bíða nýrrar framkvæmdastjórnar. Við þurfum að raða okkur saman og vinna með öðrum hætti en áður. Og við getum sagt að þegar búið verður að stilla strengina sama verðum við í aðstöðu til ýta seinni bylgju breytinganna úr vör,“ segir Páll Matthíasson að lokum.