Íbúðamarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er enn í fullu fjöri og mælast hækkanir á íbúðaverði, á ársgrundvelli, nú um 16%. Það eru svipaðar tölur og sáust síðast á árunum 2016 og 2017. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans .

Íbúðaverð hækkaði að meðaltali um 1,4% milli maí og júní. Þar af hækkaði sérbýli um 1,7% og fjölbýli um 1,4%. Árshækkun sérbýlis mældist um 17% miðað við 18% í síðustu mælingum frá því í maí. Hækkun fjölbýlis fyrir sama tímabil er um 15,3% og hefur hækkunin ekki verið meiri síðan í október 2017.

Greinilegt er að mikil spenna ríkir enn á íbúðamarkaði. Um 43% íbúða á sérbýlismarkaði og um 37% íbúða á fjölbýlismarkaði seljast nú yfir ásettu verði. Hlutfallið hefur aldrei reynst hærra frá því að mælingar hófust í byrjun árs 2013.

Á þessu ári hafa að meðaltali 811 íbúðir selst í hverjum mánuði. Það eru um helmingi fleiri íbúðir en á sama tíma í fyrra, eða 52%.