Danski seðlabankinn seldi 47 milljarða danskra króna, jafnvirði 935 milljarða íslenskra króna, í síðasta mánuði til að vernda festingu gjaldmiðilsins við evruna. Um er að ræða stærsta gjaldeyrisinngrip danska í sjö ár til að veikja dönsku krónuna, að því er kemur fram í frétt Bloomberg .

Með viðskiptunum fór gjaldeyrisforði bankans upp í 530 milljarða danskra króna í lok desember og hefur hann ekki verið stærri frá árinu 2015.

Seðlabankinn notar gjaldeyrisinngrip til að halda gengi dönsku krónunni gegn evrunni innan vikmarka en annars þarf hann að grípa til vaxtabreytinga. Stýrivextir Danmerkur eru neikvæðir um 0,6% í dag en þeir verið neikvæðir frá árinu 2015, lengur en hjá nokkurri annarri þjóð.

Óljóst hver næstu skref seðlabankans verða

Hagfræðingar hjá stærstu lánveitendum Danmerkur eru ekki á sömu skoðun um hvort aukin inngrip seðlabankans séu merki um hvort von sé á vaxtalækkun.

Jan Storup Nielsen, hagfræðingur Nordea, segir við Bloomberg að stýrivaxtalækkun gæti verið yfirvofandi ef lausafjárstaða batni batni ekki á peningamörkuðum. „Helsta ástæðan fyrir áframhaldandi þrýstingi sem styður við hátt gengi dönsku krónunnar er lítið magn af lausafjárgnótt (e. excess liquidity).“

Hagfræðingar hjá Danske Bank telja hins vegar að gjaldeyrisinngripið stafi aðallega af tímabundum áhrifum. „Það eru takmörk fyrir því hversu lágir stýrivextir geta orðið og við erum líklega ekki langt frá því,“ skrifaði Bjorn Tangaa Sillemann, greinandi hjá Danske, í bréfi til viðskiptavina.

Greiningaraðilar hjá Sydbank og Jyske Bank segja að líkurnar á vaxtalækkun séu meiri í ljósi inngripanna í desember. Greinendur hjá fjármálafyrirtækinu Nykredit eiga þó von á að stýrivextir danska seðlabankans verði óbreyttir um tíma.