*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 10. mars 2019 11:13

Mestu máli skiptir að vera undirbúin

Lilja Dögg Jónsdóttir hagfræðingur segir undirbúning fyrir Fjórðu iðnbyltinguna skipta höfuðmáli.

Kristján Torfi Einarsson
Lilja Dögg Jónsdóttir er hagfræðingur og einn af höfundum skýrlunnar Ísland og fjórð iðnbyltingin.
Haraldur Guðjónsson

Um síðustu helgi birti forsætisráðuneytið skýrsluna Ísland og fjórða iðnbyltingin. Í kaflanum um áhrif tæknivæðingarinnar framundan er tæpt á niðurstöðum þeirra erlendra rannsókna sem hafa komist í hámæli vegna sláandi spádóma um breytingar á vinnumarkaði. Einna þekktust er bresk rannsókn frá 2013 eftir Carl B. Frey og Michael A. Osborn við Oxford háskóla. Niðurstaða þeirra var sú að mögulega myndu 47% allra starfa í Bandaríkjunum verða sjálfvirknivædd á næstu tveimur áratugum. Í tveggja ára rannsókn ráðgjafafyrirtækisins McKinsey frá árinu 2017 var niðurstaðan sú að 60% allra starfa samanstandi af að minnsta kosti þriðjungi verkefna sem hægt væri að tæknivæða.

Stjórnmálamönnum og stefnusmiðum er vorkunn ef þeir eigi erfitt með að festa hendur á tölum í spádómum fræðimanna. Rannsókn á vegum háskólans í Mannheim frá árinu 2015 komst t.d. að þeirri niðurstöðu að 9% starfa væru í hættu vegna sjálfvirknivæðingar.

Skýrsluhöfundarnir íslensku styðja sig hins vegar við rannsókn OECD (Efnahags og framfarastofnunin) sem birt var snemma á síðasta ári. Rannsóknin náði til 32 landa og samkvæmt niðurstöðum hennar eru um 14% starfa í þessum löndum mjög líkleg til að verða sjálfvirknivædd, eða meira en 70% líkur á sjálfvirknivæðingu. Um 32% starfa teljast í meðallagi líkleg til að breytast, með metnar 50-70% líkur á sjálfvirknivæðingu.

Í alþjóðlegum samanburði er íslenskur vinnumarkaður þannig tiltölulega ónæmur fyrir sjálfvirknivæðingunni. En á Íslandi eru 28% starfa talin mjög líkleg til að vera sjálfvirknivædd (50% líkur eða meira) en hlutfallið er að jafnaði 46% í þeim löndum sem könnun OECD tók til.

Þótt tölur og spádómar fræðimanna kunni að vera misvísandi og umdeildar þá eru niðurstöður rannsókna á einn veg og fræðimenn í aðalatriðum sammála. Miklar breytingar eru í vændum

Lilja Dögg Jónsdóttir er hagfræðingur og einn af höfundum skýrslunnar. Hún segir vissulega rétt að setja fyrirvara við allar spár og þótt mikilvægt sé að hafa spárnar sem bestar sé það ekki endilega aðalatriði í hinu stóra samhengi. „Ég held að það verði miklar breytingar og þær munu leggjast misþungt á ólíka samfélagshópa. Það sem mun ráða miklu um þróunina er hvernig við sem samfélag munum hjálpa þeim sem gegna störfum sem munu hverfa. Hvernig okkur tekst að hjálpa fólki að finna færni þess og þekkingu nýjan farveg og ný tækifæri. Ég er bjartsýn á þetta sé hægt, sérstaklega ef við erum vel undirbúin og vakandi fyrir breytingunum. Og af þessum sökum er mikilvægt að stjórnvöld og stjórnsýslan séu upplýst og reiðubúin til að takast á við verkefnin framundan og þessi skýrsla er liður í þeim undirbúningi,“ segir Lilja Dögg.

Árið 1960 kom út ritgerðin „The Corportation: Will It Be Managed by Machines?“ eftir Herbert Simon. Ritgerðin vakti mikla athygli á sínum tíma, ekki síst vegna þess að í henni spáði Simon að tölvur myndu innan tíðar leysa af hólmi 80% allra starfa á bandaríska vinnumarkaðinum. Ályktun og innsýn Simons var ekki röng en mjög erfitt er að festa niður tímaramma fyrir slíkar áætlanir. Það er því ekki úr vegi að hafa orð herforingjans Dwights Einsenhower í huga þegar áhrifa fjórðu iðnbyltingarinnar eru áætlaðar: „Áætlanir eru einskis virði en áætlanagerð er nauðsynleg.“

 Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér