Töluverð verðmæti liggja í vörumerkjum tölvu- og símafyrirtækja. Slík fyrirtæki eru um helmingur þeirra fyrirtækja sem komast á lista Brandz yfir 30 verðmætustu vörumerki heims.

Brandz birti skýrslu sína yfir 100 verðmætustu vörumerki heims fyrr í sumar, fimmta árið í röð. Þegar horft er til 30 verðmætustu vörumerkjanna er þar að finna átta fyrirtæki sem ýmist flokkast undir tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki eða veffyrirtæki, og sjö risastór símafyrirtæki.

Í þremur efstu sætum listans sitja Apple, Google og IBM sem öll flokkast undir tölvu og hugbúnaðarfyrirtæki.

Apple mælist í fyrsta sinn verðmætasta vörumerki heims en vörumerkið er metið á um 153 milljarða Bandaríkjadali. Google, sem síðustu ár hefur verið metið verðmætast, mælist nú í öðru sæti. Samanlagt verðmæti þeirra 8 fyrirtækja sem flokkast undir tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki er um 555 milljarðar dala.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.