Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi stóð næstum því í stað í viðskiptum dagsins, en lækkunin nam 0,03%, og fór hún niður í 2.139,18 stig.

Heildarviðskiptin námu 1,6 milljarði króna, en mesta veltan var með bréf Kviku banka, eða fyrir 303 milljónir króna, næst mest með bréf Arion banka, eða fyrir 222 milljónir króna, og þriðja mesta með Sjóvá, eða fyrir 204,5 milljónir króna.

Síðastnefnda félagið hækkaði jafnframt mest, eða um 2,15%, upp í 17,85 krónur hvert bréf, en Kvika hækkaði um 1,11%, í 10,00 krónur og Arion hækkaði um 0,37%, í 81,40 krónur.

92 milljóna viðskipti dugðu til að lækka Úrvalsvísitöluna

Einungis þrjú félög lækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, en þar sem mest lækkun var á gengi bréfa Marel, eða um 0,56%, niður í 621 krónur, dugði það til að vísitalan var neikvæð, vegna vægi félagsins, þó viðskiptin næmu ekki nema 60 milljónum króna.

Heimavellir lækkuðu næst mest, eða um 0,44%, í enn minni viðskiptum eða fyrir um 14 milljónir króna, og fór gengi bréfanna niður í 1,13 krónur. Þriðja mesta lækkunin var á gengi bréfa Eikar, eða um 0,12%, einnig í litlum viðskiptum eða fyrir 18 milljónir króna og nam lokagengi bréfanna 8,16 krónur. Samtals námu viðskiptin með bréfin sem lækkuðu 92 milljónum króna.

Breska pundið komið yfir 160 krónur

Krónan veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum í dag, en gengi svissneska frankans styrktist mest gagnvart krónunni, eða um 0,46%, og kostar hann nú 125,39 krónur.

Næst mest var styrking Bandaríkjadals, eða um 0,42%, og fór hann í 122,95 krónur, breska sterlingspundið styrktist um 0,16%, fór í 160,74 krónur, og evran styrktist um 0,15%, og fæst nú á 136,75 krónur.