Von um betri tíma vaknaði á ný í Grikklandi í dag eftir að þjóðhagsreikningar þriðja ársfjórðungs landsins voru birtir en þar kom fram að landsframleiðsla óx um 0,7% á ársfjórðungnum og var hann sá mesti í öllu Evrusvæðinu.

Ástæða vaxtarins er helst talin vera sterkt ferðamannatímabil yfir sumarið en tölurnar virðast gefa til kynna að Grikkland sé á batavegi eftir næstum því sex ára niðursveiflu. Hagvöxtur á ársfjórðungnum á undan nam 0,4% en ráðamenn í Grikklandi hafa sett stefnuna á að hagvöxtur ársins í heild muni nema 0,6%.

Þótt tíðindin séu gleðileg fyrir Grikkland bera þau einnig vott um dræman vöxt í Evrópu yfir höfuð en landsframleiðsla í Þýskalandi, Frakklandi og í Ítalíu á sama tíma hefur verið undir væntingum.

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times .