"Á komandi árum mun hlutdeild iðnaðar í gjaldeyrisöflun Íslendinga halda áfram að aukast, meðal annars vegna núverandi stóriðjuframkvæmda og verður iðnaðurinn í heild ein þriggja meginstoða í gjaldeyrisöfluninni ásamt sjávarútvegi og þjónustugreinum." Þetta segir Þorsteinn Þorgeirsson, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Þorsteinn bendir á að mestur vöxtur í gjaldeyrisöflun hafi átt sér stað í hátæknigreinum iðnaðar og stóriðju.

Í dag koma 63% af gjaldeyristekjum úr útflutningi af vörum, þar af 37% úr sjávarútvegi, rúm 23% úr iðnaði og um 3% frá öðrum vörum. Þjónustugreinar afla um 32% gjaldeyristekna. Rúm 5% gjaldeyristekna koma af svokölluðum þáttatekjum, en þær samanstanda af ávöxtun verðbréfaeignar landsmanna erlendis ásamt launagreiðslum til íslenskra starfsmanna erlendis. "Af þessu sést hversu mikilvægur vöruútflutningur er fyrir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins," segir Þorsteinn en hann telur þó líklegt að tekjur af verðbréfaeign Íslendinga muni aukast á komandi árum þó svo að þær verði áfram minnstur hluti gjaldeyristekna.