Hagnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) nam milljarði króna og 56 milljónum betur á síðasta ári. Hagnaðurinn dróst saman um tæp fimm prósent, tæpar 55 milljónir króna, á milli ára. Sléttur milljarður var greiddur ríkinu í arð sem er sama upphæð og árið 2018. Árið 2017 greiddi stofnunin, sem er án stjórnar, hins vegar ríflega 1,7 milljarða króna í arð.

Alls runnu rúmlega 26,2 milljarðar króna í ríkiskassann á síðasta ári gegnum áfengis- og tóbaksgjöld, arðgreiðslur og virðisaukaskatt af áfengi í Vínbúðunum. Er það aukning um ríflega milljarð milli ára. Áfengisinnflytjendur og -framleiðendur standa straum af greiðslu áfengisgjaldsins en það nam í fyrra 14,2 milljörðum króna og jókst um tæplega 770 milljónir króna á milli ára.

Sala á áfengi jókst um rúmlega 1,5 milljarða króna, nam tæplega 27,3 milljörðum króna, en söluaukning varð bæði í flokki léttra vína, sterks áfengis og bjórs. Mest var aukningin í sterku áfengi en þar seldust tæplega 1,2 milljónir lítra og er það aukning um rúm 15% frá fyrra ári. Bætist það við fimmtungsaukningu í sölu ársins í fyrra. Tæplega 3,8 milljónir lítra af léttu víni seldust, sem er aukning um 2,36%, en samdráttur varð í flokknum árið 2018. Þá hefur aldrei selst meira af bjór eða tæplega 17,7 milljónir lítra.

ÁTVR er smásali þegar kemur að áfengi en í tóbaki gegnir stofnunin hlutverki heildsölu. Söluaukning tóbaks var öllu minni en í áfenginu eða fyrir um 150 milljónir rúmar. Alls seldist tóbak fyrir 9,6 milljarða í fyrra. Þar af nam sala íslenska neftóbaksins rúmlega 1,5 milljörðum króna og jókst salan um 6,8% milli ára. Magn selds neftóbaks var 46 tonn, aukning um rúmlega 1,3 tonn sem samsvarar 3,14%. Samdráttur var í sölu á öðru tóbaki. Áhugavert verður að sjá hvort innkoma nikótínpúða á markaðinn muni stuðla að því að sala á íslenska ruddanum dragist saman á árinu 2020 en þeir hófu innreið sína á markaðinn undir lok síðasta árs. Sala á íslensku neftóbaki hefur ríflega fjórfaldast frá aldamótum.

Sem fyrr er ekki nokkur leið til að lesa úr ársreikningnum framlegð starfsþátta stofnunarinnar. Það liggur í hlutarins eðli að nokkuð minni yfirbygging fylgir því að starfrækja heildsölu með tóbak heldur en smásölu með áfengi. Í fyrra barst ríkisendurskoðanda erindi þar sem vakin var athygli á því að mögulegt væri að hagnaðurinn væri á tóbakssölunni en tap af áfengishlutanum. Enn sem komið er hefur ekkert birst opinberlega um lyktir þeirrar athugunar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .