Velta í dagvöruverslun jókst um 22,2% í júlí síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og hefur vöxturinn aldrei verið meiri frá því að farið var að mæla smásöluvísitöluna árið 2001.

Á föstu verðlagi jókst velta í dagvöruverslun um 3,2% miðað við sama mánuð í fyrra. Verðlagsáhrif vega þyngst í þessari miklu krónutöluhækkun í veltu dagvöruverslunar, en verð á dagvöru hækkaði um 18,4% á einu ári, frá júlí í fyrra til júlí á þessu ári. Veltan jókst þó umfram þessar verðlagshækkanir.

Þetta kemur fram á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst en stofnunin mælir smásöluvísitölu mánaðarlega.

Þar kemur fram að sala áfengis jókst í júlí. Þannig var velta áfengissölu 26,3% meiri í júlí miðað við sama mánuð árið áður á breytilegu verðlagi og 17,1% á föstu verðlagi. Verð á áfengi var 7,9% hærra í júlí síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands.

Fataverslun jókst einnig á milli ára og var og 7,2% meiri á breytilegu verðlagi og 3,9% á föstu verðlagi í júlí miðað við sama mánuð í fyrra.

Í skýrslunni kemur fram að á milli mánaðanna júní og júlí jókst veltan um 9,4% á breytilegu verðlagi og um 25,0% á föstu verðlagi. Verð á fötum lækkaði um 12,5% á milli mánaðanna júní og júlí.

„Sumarútsölur eiga líklega stærstan þátt í því. Verð á fötum hækkaði hins vegar um 3,1% á síðustu 12 mánuðum, sem eru minni hækkanir en í flestum öðrum vöruflokkum,“ segir í skýrslunni.

Minni velta í skó- og húsgagnaverslun

Þá kemur fram að skóverslun dróst saman í júlí miðað við sama mánuð í fyrra um 2,2% á breytilegu verðlagi og um 10,4% á föstu verðlagi.

Einnig varð samdráttur í skóverslun á milli mánaðanna júní og júlí á föstu verðlagi um 0,9% og um 6,7% á breytilegu verðlagi. Verð á skóm í júlí hækkað um 9,2% frá því í júlí í fyrra.

Í júlí minnkaði velta í húsgagnaverslun um 9,6% á föstu verðlagi miðað við næstliðinn mánuð og um 16,6% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 14,5% frá því um áramótin.

Verðhækkanir á matvælum í verslunum í takt við hækkanir á matvörum frá innlendum framleiðendum

Í skýrslunni kemur fram að miklar sveiflur hafa verið í verslun að undanförnu.

„Í maí og júní varð raunlækkun í veltu dagvöruverslunar sem ekki hafði sést um langt skeið, en í júlí jókst velta aftur umfram verðlagshækkanir. Ef til vill ræður gott veðurfar í júlí þar einhverju um auk þess sem fimmtudagur fyrir verslunarmannahelgi var síðasti dagur júlímánaðar, en það er jafnan söluhár dagur í dagvöru- og áfengisverslun. Auk þess er nú hagstæðara fyrir erlenda ferðamenn að kaupa mat og drykk hér á landi en undanfarin ár, sem gæti haft sín áhrif,“ segir í skýrslunni.

„Þó verðhækkanir á matvælum stafi að miklu leyti af hækkunum á alþjóðamörkuðum hafa gengisáhrif einnig veruleg áhrif. Gengisvísitalan hækkaði um 32,2% á tímabilinu frá áramótum til 15. júlí síðastliðinn. Þegar horft er til þess að u.þ.b. fjórðungur matvöru í verslunum er innflutt auk þess sem fluttar eru inn hrávörur til innlendrar matvælaframleiðslu, eins og kornvörur, sést að gengisfall krónunnar hefur veruleg áhrif. Enda hafa orðið meiri verðhækkanir á matvælum hér en á hinum Norðurlöndunum að undanförnu.“

Þá segja skýrsluhöfundar að verðhækkanir á matvælum í verslunum hafa verið í takt við hækkanir á matvörum frá innlendum framleiðendum.

„Þetta sést þegar borin er saman vísitala framleiðsluverðs innlendra matvæla við þann hluta neysluverðsvísitölu Hagstofunnar sem sýnir verð á matvælum út úr búð. Þannig ráðast verðhækkanir ekki af aukinni álagningu í smásöluverslun heldur af innkaupaverði þeirra,“ segir í skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar.