Aldrei hafa fleiri nemendur útskrifast af háskólastigi á einu skólaári eins og á skólaárinu 2005 til 2006.

Á háskólastigi útskrifuðust 3.362 nemendur með 3.388 próf skólaárið 2005-2006. Aldrei hafa fleiri útskrifast úr námi á háskólastigi á Íslandi á einu skólaári síðan gagnasöfnun Hagstofu Íslands hófst árið 1995. Brautskráðum nemendum fjölgaði um 453, eða 15,6% frá árinu áður. Brautskráðum konum fjölgaði um 281 (14,2%) en körlum um 172 (18,4%). Konur voru tveir þriðju (67,1%) þeirra sem útskrifuðust með próf á háskólastigi og karlar þriðjungur (32,9%) útskrifaðra. Aldursdreifing útskrifaðra nemenda var frá 19 ára og upp í 75 ára aldur.

Aldrei áður hafa fleiri útskrifast með doktorspróf á einu skólaári, eða 15 nemendur, 7 karlar og 8 konur. Árið áður voru 14 doktorar brautskráðir. Ekki hafa fleiri lokið meistaragráðu á Íslandi á einu skólaári. Þeir voru 411 og fjölgaði um 119 frá fyrra ári, sem er fjölgun um 40,8%. Konum fjölgaði um 84 (49,7%) og körlum um 35 (28,5%).

Flestar brautskráningar á háskólastigi eru vegna nemenda sem ljúka fyrstu háskólagráðu. Þær voru 2.441 talsins skólaárið 2005-2006, og fjölgaði brautskráningum með fyrstu háskólagráðu um 261 frá fyrra ári (12,0%).

Brautskráðir nemendur af framhaldsskólastigi hafa aldrei verið fleiri
Alls brautskráðust 4.832 nemendur af framhaldsskólastigi með 5.317 próf skólaárið 2005-2006. Þetta er fjölgun um 31 nemendur frá fyrra ári, eða 0,7%. Aldrei áður hafa svo margir nemendur útskrifast af framhaldsskólastigi á einu skólaári. Konur voru nokkru fleiri en karlar eða 52,5% brautskráðra nemenda.

Brautskráningar úr ýmiss konar starfsnámi á framhaldsskólastigi voru 2.843. Flestir ljúka námi á sviðunum framleiðsla og mannvirkjagerð eða 1.159, en þar á meðal flokkast flestar iðngreinar. Næstflestir luku námi í þjónustugreinum, eða 500 talsins. Brautskráðir nemendur með sveinspróf voru 609, 12 fleiri en skólaárið 2004-2005.

Stúdentum fjölgaði um 29 frá fyrra ári
Alls útskrifuðust 2.452 stúdentar úr 31 skólum skólaárið 2005-2006; 29 fleiri en skólaárið 2004-2005. Ekki hafa áður útskrifast stúdentar úr þetta mörgum skólum á sama skólaári en skólaárið 2000-2001 voru stúdentar brautskráðir frá 30 skólum. Körlum meðal nýstúdenta fjölgaði um 38 en konum fækkaði um 9 frá fyrra ári. Skólaárið 2003-2004 fór hlutfall stúdenta sem hlutfall af tvítugum landsmönnum í fyrsta skipti yfir 60% og er nú 61,1%. Það vekur athygli hversu miklu fleiri konur en karlar ljúka stúdentsprófi. Skólaárið 2005-2006 luku 1.450 konur stúdentsprófi, 73,3% af fjölda tvítugra það ár en 1.002 karlar, 49,2% af fjölda tvítugra.