Um 70 íbúðir hafa verið byggðar eða eru í byggingu í Sveitarfélaginu Skagafirði frá byrjun árs 2003. Því til viðbótar hafa verið byggð rúmlega 10 einbýlishús og leyfi veitt fyrir nokkrum viðbyggingum við einbýlishús á sama tíma. Þetta er met í byggingarframkvæmdum á svæðinu og endurspeglar bæði uppgang í atvinnulífi og bjartsýni einstaklinga.

Stór hluti umræddra bygginga er utan Sauðárkróks og til að mynda eru um 20 íbúðir í byggingu og nýbúið að afhenda aðrar 20 á Hólum vegna stækkunar Háskólans á Hólum. Þá hafa framkvæmdir við endurbyggingu atvinnuhúsnæðis verið áberandi, m.a. vegna aukinnar tæknivæðingar á kúabúum og uppbyggingar sjávarfræðaseturs Hólaskóla á Sauðárkróki, sem byggt er upp í samvinnu við Fiskiðjuna Skagfirðing.

Verð á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu hefur hækkað um 10% milli áranna 2003 og 2004, samkvæmt upplýsingum af vef Fasteignamats ríkisins. Samkvæmt upplýsingum fasteignasala á Sauðárkróki hefur verð á fasteignum á Sauðárkróki hækkað meira, allt að 20% á milli ára. Mikil eftirspurn er einnig eftir leiguhúsnæði.

Atvinnuástand er mjög gott um þessar mundir í Skagafirði. Atvinnuleysi mælist vart, samkvæmt upplýsingum frá Svæðisvinnumiðlun Norðurlands vestra, og skortur er á fólki í ákveðin störf, t.d. í matvælaiðnaði og byggingariðnaði. Margir virðast hafa áhuga á því að vinna í Skagafirði og sem dæmi má nefna að tæplega 60 manns sóttu um stöðu sem losnaði hjá Byggðastofnun á Sauðárkróki nýverið.

Íbúum í Sveitarfélaginu Skagafirði fjölgaði á síðasta ári og eru þeir nú 4.181.