Fjárfest var í íbúðarhúsnæði fyrir ríflega 32 milljarða króna á fyrri helmingi þessa árs og er það aukning um 4,8 milljarða króna frá sama tímabili í fyrra, segir greiningardeild Glitnis.

?Á föstu verði er aukningin nær 14%. Aldrei hefur verið fjárfest eins mikið í íbúðarhúsnæði á einum árshelmingi og á fyrri helmingi þessa árs.

Athygli vekur að á tímabilinu frá 1997 eða á því tímabili sem hefur verið mikil hækkun á verði íbúðarhúsnæðis hefur verið nær samfeldur vöxtur í íbúðafjárfestingum. Þannig voru fjárfestingar í íbúðarhúsnæði ríflega helmingi meiri á fyrri hluta þessa árs en þær voru á fyrri hluta árs 1997," segir greiningardeildin.

Hún segir að ástæður þessa mikla vaxtar liggja í auknum kaupmætti almennings mælt í íbúðarhúsnæði.

?Laun hafa hækkað hratt á þessu tímabili, vextir lækkað, aðgengi að lánsfé batnað og eignaverð s.s. hlutabréfaverð bætt eignastöðu heimilanna. Athygli vekur að á árinu 2003, þegar hagkerfið var að koma úr viðlíka niðursveiflu og spáð er á næsta ári, stóð íbúðafjárfestingin í stað en dróst ekki saman," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin spáir að fjárfesting muni dragast saman um 4,5% árið 2007 og 5,8% árið 2008.